Erlent

Danskir Vítisenglar stofna unglingaklúbb

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Vítisenglar í Danmörku stofna unglingahóp. Mynd/ AFP.
Vítisenglar í Danmörku stofna unglingahóp. Mynd/ AFP.
Vélhjólaklúbburinn Vítisenglar í Danmörku stofnar í dag sérstakan hóp fyrir unglinga undir 18 ára aldri. Hópurinn mun bera titilinn Varnarhópur víkinga, segir Berlingske Tidende.

„Við tökum ekki fólk undir 18 ára aldri í AK 81. Þannig að þetta er vettvangur fyrir fólk sem er kannski of ungt til að komast í þann hóp, eða fólk sem vill styðja svolítið við bakið á okkur. Þannig að fólk getur komið þarna og fengið að kynnast aðstæðum," segir Jørn „Jønke" Nielsen, leiðtogi danskra Vítisengla, í samtali við BT. AK 81 er stuðningshópur Vítisengla sem fullorðnir geta gengið í.

Danska lögreglan hefur áhyggjur af þessum hópi og telur að þeir sem eru æðra settir í klúbbnum ætli að reyna að koma sér upp þjónum. „Nú á meðvitað að kalla til sín unglinga niður í 14-15 ára. Börn geta ekki metið afleiðingarnar af því starfi sem þau eru að taka þátt í, eða metið aðstæðurnar. Það er mikil hætta á að þau endi í afbrotum," segir Kim Kliver, yfirmaður greiningadeildar Ríkislögreglustjórans í Danmörku.

Kliver hvetur dönsk skólayfirvöld og starfsmenn skólanna að vera á varðbergi gagnvart þessari þróun.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×