Viðskipti innlent

Geir Haarde og krimmar sem strjúka hvítum köttum

„Síðasti stjórnmálamaðurinn sem notaði skuldatryggingaálag sem blóraböggul fyrir erfiðleika þjóðar sinnar var Geir Haarde þáverandi forsætisráðherra Íslands sjö mánuðum áður en hagkerfi landsins hrundi. Hann óskar þess sennilega núna að hafa einbeitt sér meir að grundvallaratriðunum en leit sinni að krimmum sem strjúka hvítum köttum."

 

Þetta er niðurlag greinar hins þekkta dálkahöfndar Lex í blaðinu Financial Times þar sem umræðuefnið er skuldatryggingaálög á þjóðríki (CDS). Lex segir að oft sé mjótt á milli vits og vitleysu og að umræðan um CDS sé farin yfir í vitleysuna. Þökk sé áhyggjum af þjóðarskuldum á evrusvæðinu hafa skuldatryggingasamningar komist í almenna umræðu sem mælikvarði á áhættuna af ríkisstjórnum.

 

Dagblöð vitna í skuldatryggingaálög og stjórnmálamenn hóta að berjast gegn CDS þar sem þeir telja að þeim sé stjórnað af einhverjum skuggaböldrum. Þetta er allt orðið svoldið kjánalegt að mati Lex.

 

Lex segir að margir bendi réttilega á að CDS mæli ekki alltaf hreina áhættu á greiðslufalli. Þetta sé lítill markaður þar sem mest af viðskiptunum fari fram í gegnum síma. Þeir sem spila á markaðinum eru bankar, tryggingafélög og vogunarsjóðir. Þar sem markaðurinn er grunnur og ógegnsær geti í raun verið möguleiki fyrir stórlaxana að breyta verðunum.

 

Hin rökræna niðurstaða er samt að ekki eigi að afnema CDS heldur veita þeim minni athygli, að mati Lex. Hann bendir á að CDS samningar á skuldum landa á borð við Grikkland, Portúgal og Bretland séu á aðeins 1 til 5% af heildarskuldunum. Hvað varðar ríkisskuldabréf þessara landa sé hlutfall þeirra sem bera CDS samninga á bilinu 2 til 12%.

 

Hér má bæta því við fyrir þá sem ekki kannast við „krimma sem strjúka hvítum köttum" að Lex er örugglega að vísa til Ernst Stavro Blofeld sem er ein af sögupersónum bóka Ian Flemming og erkióvinur hetjunnar James Bond eða 007.

 

Blofeld kom fram í einum sex James Bond bíómyndum. Þar á meðal From Russia With Love, Thunderball, Diamonds Are Forever og You Only Live Twice.

 

Meðal þeirra sem léku Blofeld má nefna Telly Savalas og Donald Pleasence










Fleiri fréttir

Sjá meira


×