Erlent

Obama sagður ósáttur við nýja byggð í Jerúsalem

Mynd/AP
Heimsókn varaforseta Bandaríkjanna til Ísraels og Palestínu hefur ekki styrkt samband Bandaríkjastjórnar og ráðamanna í Ísrael. Barack Obama er sagður afar ósáttur við þá ákvörðun Ísraela að leyfa nýja byggð í Jerúsalem.

Ekki er líklegt að þriggja daga heimsókn Joe Biden, varaforseta Bandaríkjanna, til Miðausturlanda verði til þess að Ísraelar og Palestínumenn hefji friðarviðræður á nýjan leik líkt og vonast hafði verið eftir. Ákvörðun ísraelskra yfirvalda að leyfa byggingu 1600 nýrra íbúða gyðinga í austurhluta Jerúsalem skyggði á heimsóknina og er Barack Obama, Bandaríkjaforseti, sagður allt annað en ánægður með ráðamenn í Ísrael. Palestínumenn vilja að austurhluti Jerúsalemborgar verði höfuðborg sjálfstæðrar Palestínu.

Stjórnmálaskýrendur fullyrða að málið muni ekki styrkja samband landanna sem hafi hafi verið jafn slæmt í langan tíma. Varaforsetinn hefur fordæmt ákvörðun Ísraela en samt sem áður sagði Biden í fyrirlestri í háskólann í Tel Aviv áður en að hann hélt heim að Ísraelar væru meðal bestu vina Bandaríkjamanna.

Ákvörðun ísraelskra yfirvalda hefur víða verið mótmælt. John Holmes, yfirmaður mannúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum, hefur meðal annars gagnrýnt Ísraela harðlega fyrir að tengja fyrirhugaða byggð við mál ísraelsk hermanns sem hefur verið í haldi Hamas-samtakanna í fjögur ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×