Erlent

Graðar endur valda usla í heimabæ Herriotts

Óli Tynes skrifar
Miðbærinn í Thirsk.
Miðbærinn í Thirsk.
Bæjarstjórnin í markaðsbænum Thirsk í Norður-Jórvíkurskíri hefur áhyggjur af því að ofsafengnir ástaleikir anda fæli gesti frá markaðstorgi bæjarins.

Kvenfuglum hefur af einhverjum ástæðum fækkað mjög undanfarin ár. Það hefur leitt til þess að steggirnir eru rosalega aðgangsharðir þegar kemur að því að maka sig.

Það gerist með slíkum látum að börn fara að gráta og konur forða sér rjóðar í kinnum.

Ekki er heimilt að skjóta þessar gröðu endur og því er nú leitað annarra leiða til þess að koma þeim af markaðstorginu.

Thirsk er annars einkum þekktur fyrir að vera heimabær dýralæknisins James Herriott sem skrifaði frægar bækur um starf sitt. Eftir þeim voru gerðir sjónvarpsþættir um um dýrin hans stór og smá.

Kannski hann hefði átt eitthvað róandi handa öndunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×