Viðskipti innlent

Verðmæti liggja í gömlum Andrésar Andar blöðum

Bragi Kristjónsson bókasali segir að hann hafi ekki rekist á gömul hasarmyndablöð með Superman eða öðrum ofurhetjum í mjög langan tíma. Hinsvegar slæðast gömul Andrésar Andar blöð stundum inn í bókabúð Braga við Hverfisgötuna og hann segir að það geti legið verðmæti í þeim.

„Í Danmörku eru mörg dæmi um að gömul Andrésar Andar blöð seljist á uppboðum á hundruðir þúsunda danskra króna eintakið," segir Bragi. „Þessi blöð lifa enn góðu lífi hér á Íslandi öfugt við hin bandarískættuðu hasarmyndablöð."

Eins og fram kemur í annarri frétt hér á síðunni var fyrsta tölublaðið um ævintýri Superman selt fyrir milljón dollara. Um er að ræða Action Comics No. 1 sem er frá árinu 1938 og kostaði 10 sent á sínum tíma.

Rifja má upp hér að á árunum fyrir tilkomu íslenska sjónvarpsins, eða fyrir miðjan sjöunda áratuginn á síðustu öld voru hasarmyndablöð mjög vinsæl meðal barna og unglinga. Mikill skiptimarkaður myndaðist með þessi blöð fyrir utan „þrjúbíó" á sunnudögum en þá þótti enginn maður með mönnum, eða strákur með strákum, nema hafa nokkur slík blöð með í bíó og skipta á þeim fyrir sýningu eða í hléi. Með tilkomu sjónvarpsins lagðist þessi skiptimarkaður meir og minna af.

Aðspurður um hvort hann hafi selt gömul Andrésar Andar blöð fyrir hundruðir þúsunda króna segir Bragi svo ekki vera. „Nei ég hef aldrei reynt, eða nennt, að standa í slíku," segir Bragi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×