Erlent

Fengu túnfisk og mjólkursopa á tveggja daga fresti

Sebastian Pinera, forseti Chile, sýndi ættingjum námumannanna skilaboð sem þeim tókst að senda í fyrradag. Mynd/AP
Sebastian Pinera, forseti Chile, sýndi ættingjum námumannanna skilaboð sem þeim tókst að senda í fyrradag. Mynd/AP
Námuverkamennirnir 33 sem setið hafa fastir í námu í Chile í tæpar þrjár vikur fengu tvær skeiðar af túnfisk úr dós, mjólkursopa og kexköku á tveggja daga fresti áður en björgunarsveitarmenn fundu þá.

Mennirnir lokuðust inni í gull- og koparnámunni á um 700 metra dýpi þegar hluti hennar hrundi fyrir 19 dögum. Vonir björgunarmanna um að finna námumennina á lífi höfðu dvínað þar sem ekkert hafði heyrst til þeirra þangað til í fyrradag.

Breska ríkisútvarpið hefur eftir lækni sem starfar við björgunaraðgerðirnar að mennirnir hafi að jafnaði fengið tvær skeiðar af túnfisk úr dós, mjólkursopa og kexköku á tveggja daga fresti. Mat og vatni hefur nú verið komið til mannanna og þá verður reynt að koma myndavél og hljóðnema til þeirra svo þeir geti talað við fjölskyldur sínar.

Mennirnir hafast við í öryggisrými í námunni og ljóst er að nokkrir mánuðir munu líða þar til hægt verður að bjarga þeim. Yfirmaður björgunaraðgerða á staðnum segir að það geti tekið fjóra mánuði að ná mönnunum aftur upp á yfirborðið. Vonir standi til að hægt verði að bjarga þeim fyrir jól en áður þurfi að bora göng sem eru að minnsta kosti 66 sentímetrar í þvermál.


Tengdar fréttir

Á lífi eftir 17 daga innilokaðir í námu

Námamennirnir 33 sem lokuðust inni í námu í Chile fyrir rúmum hálfum mánuði eru á lífi. Það gæti tekið mánuði að ná mönnunum úr prísundinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×