Viðskipti innlent

Íslandsbanki vísar ásökunum um þvinganir á bug

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Íslandsbanki vísar á bug ásökunum framkvæmdastjóra Capacent í fjölmiðlum þess efnis að bankinn hafi þvingað starfsmenn félagsins til þess að taka yfir rekstur þess og skipta um kennitölu. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur bankinn átt í viðræðum við félagið síðustu misseri vegna slæmrar skuldastöðu þess.

Í yfirlýsingu frá Íslandsbanka segir að bankinn starfi eftir sameiginlegum verklagslagsreglum Samtaka Fjármálafyrirtækja sem byggi á 3. grein laga nr. 107/2009. Reglunum sé ætlað að tryggja sem best jafnræði og samræmd vinnubrögð í meðferð skuldamála fyrirtækja.

„Í síðustu viku varð ljóst að þær hugmyndir sem stjórnendur félagsins höfðu um lausn málsins rúmuðust ekki innan þess vinnuramma sem bankanum ber að starfa eftir. Það var því skoðun bankans að eina færa leiðin í stöðunni væri að gefa félagið upp til skiptameðferðar og að eignir þess yrðu seldar hæstbjóðanda í gagnsæju söluferli hjá skiptastjóra. Eigendur og stjórnendur félagsins kusu hinsvegar sjálfir að fara aðra leið," segir í yfirlýsingu frá Íslandsbanka.


Tengdar fréttir

Forstjóri Capacent segir yfirtökuna vera kennitöluflakk

Forstjóri Capacent á Íslandi segir að yfirtaka starfsmanna félagsins á rekstri þess sé dæmi um kennitöluflakk. Íslandsbanki hafi þvingað starfsmenn til að taka yfir rekstur félagsins en bankinn vildi ekki fallast á tilboð um niðurfærslu lána. Ný kennitala hefur verið stofnuð í kringum rekstur félagsins en ekki stendur til að segja upp starfsfólki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×