Skoðun

Málefnaleg afstaða

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir skrifar
Þingmönnum er iðulega legið á hálsi fyrir að greiða atkvæði eftir flokkslínum fremur en eigin sannfæringu. Þegar það svo gerist að flokkslínur eru ekki til staðar, en hver og einn gerir upp hug sinn á eigin forsendum, kveður við nýjan tón. Einstaklingsbundnar ákvarðanir verða að flokkslínum og fordæmdar. Í atkvæðagreiðslu um ákærur á hendur fyrrverandi ráðherrum kusu Sjálfstæðismenn allir sem einn. Af hverju? Mér segir svo hugur að fjölmargir kjósendur Sjálfstæðiflokksins vilji kalla saman landsdóm, þá skoðun hef ég í það minnsta heyrt frá venjulegum sjálfstæðismönnum síðustu dagana. Í þingflokki þeirra réði hins vegar flokkslínan.

Þegar þingmenn fara ekki eftir flokkslínum í atkvæðagreiðslu gerast óvæntir hlutir, sér í lagi þegar mjótt er á munum. Ég mótaði mína afstöðu á grundvelli niðurstaðna skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, vinnu þingmannanefndarinnar, fræðigreinum og samræðum við fjölmarga einstaklinga sem þekkja vel til, m.a. lögfræðinga. Ég samþykkti ákærur á þrjá ráðherra, en hafði mikilar efasemdir um fyrrverandi utanríkisráðherra. Ekki af því að hún bæri ekki mikla pólitíska ábyrgð á störfum ríkisstjórnarinnar sem formaður annars stjórnarflokksins, heldur vegna skipanar stjórnarráðsins í afmörkuð ráðuneyti. Ákæruvald Alþingis er bundið við lög um ráðherraábyrgð. Ráðherraábyrgð er bundin við embættisverk ráðherra og tekur til lagalegrar ábyrgðar þegar pólitískri ábyrgð sleppir. Efnahagsmál, ríkisfjármál og málefni fjármálamarkaðar heyra ekki undir utanríkisráðherra. Þetta er auðvitað umdeilanleg afstaða, en hún er byggð á málefnalegum forsendum. Ég vek athygli á því að þeir sjálfstæðismenn sem hafa gagnrýnt mig eftir atkvæðagreiðsluna eru sammála þessu mati mínu. Þeirra gagnrýni getur því vart talist málefnaleg hvað þetta varðar.

Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar var ekki í samræmi við mína afstöðu, enda taldi ég rétt að ákæra þrjá ráðherra. Meirihluti Alþingis var sammála mér um tvo ráðherra af fjórum. Þessari niðurstöðu verð ég að una eins og aðrir þingmenn.










Skoðun

Sjá meira


×