Innlent

Er rétt að birta öll málsskjöl í dómsmálum á netinu?

Þorbjörn Þórðarson. skrifar

Formaður dómstólaráðs segir að vel megi taka til athugunar breytingar á reglum um birtingu dómsskjala til að auka aðgang almennings að þeim, en núverandi fyrirkomulag byggir á gömlum merg.

Athygli hefur vakið eftir að slitastjórn Glitnis höfðaði mál gegn fyrrverandi eigendum og stjórnendum bankans fyrir dómstóli New York-fylkis í Bandaríkjunum hversu mikið gagnsæi virðist einkenna réttarfar þar í landi, en á vef dómstólsins eru nær öll gögn málsins aðgengileg. Allar eiðsvarnar yfirlýsingar og ítarlegar upplýsingar um málsástæður og lagarök aðila málsins eru birtar á netinu.

Hér á Íslandi er aðgangur að dómsskjölum mun takmarkaðri. Dómsniðurstöður eru hins vegar birtar á vefsíðum dómstólanna, bæði Hæstaréttar og vef héraðsdómstólanna. Í flestum tilvikum eru nöfn aðila máls birt, en þó ekki í viðkvæmum málum eins og forsjárdeilum og ákveðnum tegundum sakamála. Þá eru ákæruskjöl aðgengileg hjá ákæruvaldinu þremur dögum eftir birtingu ákæru, en það er í samræmi við heimild sem tekin var upp í 156. gr. laga um meðferð sakamála. Á grundvelli þessar heimildar gátu fjölmiðlar fengið aðgang að ákæru á hendur þremenningum í Exeter-málinu, svo dæmi sé tekið. Hins vegar er enginn annnar aðgangur veittur og gögn úr dómsmálum sem rata í hendur almennings komast aðeins í gegnum nálaraugað að því gefnu að einhver leki þeim eða afhendi þau.

En hvað er því til fyrirstöðu að auka aðgang að gögnum máls líkt og dómstólar gera vestanhafs? Og yrði það ekki til þess fallið að auka gagnsæi, veita ákæruvaldinuaðhald og til þess fallið að upplýsa mál betur, sérstaklega ef almenningur hefði kost á að skoða skjölin og koma athugasemdum á framfæri?

„Það eru sjónarmið sem vegast á í þessu. Við höfum byggt okkar réttarkerfi á norrænni hefð þar sem að við miðum við að til þess að fá aðgang að skjölum þurfi menn að hafa lögvarða hagsmuni. Við erum að girða fyrir það að fólk sé að hnýsast af einskærum áhuga í einhver mál, forvitnast. Um leið og menn hafa lögvarða hagsmuni, þ.e að það skipti máli fyrir fólk að lögum að komast í gögnin, þá veitum við aðgang. Á móti kemur tillitið til hagsmuni þeirra sem í hlut eiga, það er verið að vernda þá," segir Símon Sigvaldason, héraðsdómari og formaður Dómstólaráðs.

„Vissulega erum við alltaf opnir fyrir því að skoða hvort að önnur sjónarmið eigi rétt á sér og séu þau rétthærri en þessi. Þetta má því svo sannarlega taka til endurskoðunar," segir Símon.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×