Viðskipti innlent

Nýskráningum bíla heldur áfram að fækka

Í febrúar síðastliðnum voru nýskráðir 117 bílar hér á landi sem er fækkun upp á 32% frá sama mánuði 2009 þegar 172 bílar voru skráðir. Ef tekið er mið af nýskráningum í janúar og febrúar þá er um að ræða 39% fækkun milli ára.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að þannig voru samtals 250 bílar skráðir á fyrstu tveimur mánuðum ársins en á sama tíma í fyrra voru þeir 407.

Þessi fækkun í nýskráningum bifreiða er í takt við þá þróun sem hefur verið hér á landi síðan við upphaf efnahagskreppunnar í febrúar árið 2008. Frá þeim tíma, og þá sérstaklega eftir bankahrunið, hefur bílainnflutningur verið með minnsta móti enda hefur eftirspurn eftir nýjum bifreiðum dregist verulega saman.

Þetta kemur fram í tölum sem Umferðastofa hefur birt um nýskráningar bifreiða.

Þessi mikli samdráttur á nýskráningu bifreiða er einnig vel sjáanlegur í tölum um afkomu ríkissjóðs sem birtar voru í gær. Þannig skiluðu vörugjöld af ökutækjum 76,9% minni tekjum á síðastliðnu ári en árið 2008.

Þess má geta að á árinu 2008 drógust tekjur ríkissjóðs af vörugjöldum ökutækja saman um þriðjung frá árinu á undan. Ljóst er að veiking krónunnar spilar hér stórt hlutverk enda er þó nokkur fylgni milli gengisþróunar og fjölda nýskráninga bifreiða. Var krónan að meðaltali 25% veikari á árinu 2009 en 2008.



Frá ársbyrjun 2008 hafa laun samkvæmt launavísitölu hækkað um tæp 11%. Á sama tíma hafa nýjar bifreiðar hækkað í verði um tæplega 42% samkvæmt vísitölumælingu Hagstofunnar. Kaupmáttur launa, mældur í bifreiðum, hefur því minnkað um tæp 22% undanfarin tvö ár á sama tíma og minna er aflögu af launum á flestum heimilum þegar búið er að greiða opinber gjöld og þjónusta lán.

Þegar við bætist að bílafloti landsmanna var bæði ungur að árum og býsna stór í upphafi kreppunnar er ekki að undra að sala nýrra bíla sé dræm um þessar mundir, að því er segir í Morgunkorninu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×