Viðskipti innlent

Allar persónulegar ábyrgðir BTB á Íslandi felldar niður

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Íslenskir kröfuhafar Björgólfs Thors Björgólfssonar felldu niður allar persónulegar ábyrgðir á hendur honum og var það hluti af samkomulagi um allsherjaruppgjör sem leitt var af Deutsche Bank, stærsta kröfuhafa Actavis, en íslensku bönkunum var stillt upp við vegg af þýska bankanum.

Í tilkynningu sem Björgólfur Thor Björgólfsson sendi fjölmiðlum í júlí síðastliðnum sagðist Björgólfur Thor hafa gengið frá samkomulagi um heildaruppgjör við erlenda og innlenda lánardrottna sína upp á alls 1.200 milljarða króna. Síðan segir: „Samkvæmt samkomulaginu munu skuldir verða gerðar upp að fullu og ekki gefnar eftir. Allar eignir Björgólfs Thors og Novators liggja til grundvallar uppgjörinu, en á þeim var gerð ítarleg úttekt og mat af hálfu alþjóðlegs ráðgjafarfyrirtækis. Björgólfur Thor verður áfram hluthafi í félögum á borð við Actavis, Play, CCP og Verne Holding. Arðurinn af þessum eignarhlutum og verðmæti, komi til sölu þeirra, munu hins vegar ganga til uppgjörs skuldanna."

Eins og fram hefur komið var þungamiðjan í samkomulaginu eignarhlutur Björgólfs Thors í Actavis og var það leitt af stærsta kröfuhafa Actavis, Deutsche Bank. Ekkert hefur verið greitt ennþá og byggist uppgjörið á væntingum um verðmæti Actavis. Einn helsti arkitektinn að þessu samkomulagi af hálfu Deutsche Bank var Stephen Pitts, framkvæmdastjóri hjá bankanum Lundúnum (e. Managing Director,
European Leveraged Finance). Samkvæmt heimildum fréttastofu var liður í samkomulaginu að allar persónulegar ábyrgðir innlendra lánardrottna á hendur Björgólfi Thor hér heima á Íslandi voru felldar niður. Gegn þessari kröfu, sem sett var fram af hálfu Deutsche Bank, fengu íslensku bankarnir að vera með í samningi um uppgjörið.

Samkomulagið um allsherjar uppgjör byggir á að við sölu Actavis innan þriggja til fimm ára fari þrír og hálfur milljarður evra af söluverðinu beint til Deutsche Bank. Samkvæmt heimildum fréttastofu á einn og hálfur milljarður evra að fara til íslenskra kröfuhafa og þeirra á meðal eru Straumur, Glitnir, Landsbankinn og Kaupþing og erlendra kröfuhafa eins og suður-afríska bankans Standard Bank. Ef verðið verður hærra skiptist afgangurinn þannig að Deutsche Bank fær 70 prósent umfram kaupverð og Björgólfur Thor og lykilstjórnendur Actavis 30 prósent. Af þessum 30 prósentum er hann með langstærstan hluta upphæðarinnar, eða um 80 prósent.

Framtíðaráætlanir um vöxt Actavis ganga út á EBITDA, þ.e hagnaður fyrir fjármagnsliði skatta og afskriftir, innan þriggja ára geti orðið á bilinu 600-650 milljónir evra, samkvæmt heimildum fréttastofu. Í nýlegum fyrirtækjakaupum í lyfjageiranum hefur verið notaður margfaldarinn 14 sinnum EBITDA, sem þýðir að verðmæti Actavis gæti orðið 9,1 milljarður evra. Ef það verður niðurstaðan mun Björgólfur Thor ganga frá þessu samkomulagi mjög auðugur maður.

Hjá Landsbankanum var Björgólfur Thor í persónulegum ábyrgðum fyrir 180 milljónum evra, jafnvirði um 27 milljarða króna. Persónuleg ábyrgð fyrir þessu láni var felld niður og hluti af samkomulaginu var að bankinn myndi ekki lögsækja Björgólf Thor og hefur verið gengið frá samningi þess efnis milli skilanefndar Landsbankans og Björgólfs Thors, samkvæmt heimildum fréttastofu. Heimildarmaður fréttastofu hjá Landsbankanum orðaði þetta svona: „Það sem við erum að gera er að semja um skuldauppgjör. Ef að þetta gengur eftir þá fáum við okkar. Það er hins vegar ekki eins og Björgólfur Thor hafi tekið upp veskið og greitt okkur. Við áttuðum okkur aldrei á því hvers vegna Deutsche Bank ákvað að fara þessa leið."

Samkvæmt heimildum fréttastofu fengu innlendir kröfuhafar Björgólfs Thors m.a þau svör hjá Deutsche Bank, og Stephen Pitts, að bankinn vildi ekki færa niður útlán til Actavis í bókum sínum. M.a af þessari ástæðu vildi bankinn halda Björgólfi Thor áfram sem hluthafa í Actavis. Í þessu samhengi má benda á að viðskiptasamband Deutsche Bank og Actavis hefur varað árum saman, allt frá aldamótum.

Áður en skilanefnd Landsbankans gerði samkomulag við Björgólf Thor var þeim rétt skýrsla, unnin af ráðgjafarfyrirtæki í Lundúnum, sem gerði ráð fyrir að endurheimtur kröfuhafa á hendur honum yrðu 3-5 prósent. Landsbankinn mat því hagsmuni sína þannig að betra væri að vera þátttakandi í samkomulaginu og fella niður persónulegar ábyrgðir Björgólfs Thors. Ef áætlanir um vöxt Actavis ganga eftir fær bankinn hins vegar stærstan hluta skulda sinna greiddan og hugsanlega alla skuldina.

Fréttastofa bar efni fréttarinnar undir Ragnhildi Sverrisdóttur, talsmann Björgólfs Thors og fékk síðar í dag eftirfarandi svar: „Björgólfur Thor er bundinn trúnaði um einstaka atriði í uppgjörinu við lánardrottna og hefur því ekki heimild til að tjá sig um málið umfram það sem kom fram í tilkynningu hans frá því í júlí sl."
Tengdar fréttir

Björgólfur Thor: Icesave og Landsbankann ekki blórabögglar

„Það, að stjórnmálamenn kjósi nú að gera Icesave og Landsbankann að blóraböggli, er á engan hátt eðlilegt, einkum þegar haft er í huga að formleg ábyrgð íslenska ríkisins á Icesave skuldbindingum kom til eftir að ríkisvaldið tók yfir Landsbankann og stjórnmálamenn hófu bein afskipti að málefnum bankans," segir Björgólfur Thor Björgólfsson í ávarpi á vefsíðu sem opnaði í dag þar sem hann birtir gögn yfir öll hans viðskipti hér á landi aftur til ársins 2002.

Björgólfur lagði áherslu á að halda Fríkirkjuveginum

Björgólfur Thor Björgólfsson lagði mikla áherslu á það við 1.200 milljarða skuldauppgjör að halda í sinni eigu sögufrægu húsi við Fríkirkjuveg, sem langafi hans lét reisa fyrir hundrað árum. Björgólfur segir að engar skuldir verði afskrifaðar en inn í uppgjörinu er hluti skulda föður hans.

Segir engar skuldir verða afskrifaðar

Björgólfur Thor Björgólfsson athafnamaður hefur gengið frá samkomulagi við lánardrottna sína um heildaruppgjör skulda. Fram kemur í tilkynningu frá Björgólfi að engar skuldir verði afskrifaðar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
SIMINN
2,79
23
428.425
EIM
1,09
6
15.650
TM
0,77
2
4.573
MAREL
0,51
14
430.537
SYN
0,36
1
3.474

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
VIS
-2,54
4
1.619.144
ICEAIR
-1,48
11
59.944
KVIKA
-1,36
10
84.287
ICESEA
-1,1
7
29.031
EIK
-1,02
1
12
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.