Erlent

Fær að halda ránsfengnum frá Haítí

Óli Tynes skrifar
Papa Doc og Baby Doc.
Papa Doc og Baby Doc.

Hæstiréttur Sviss hefur úrskurðað að skila eigi fjögurra komma sex milljóna dollara bankareikningum til Duvalier fjölskyldunnar frá Haítí.

Papa Doc Duvalier var forseti Haítís frá 1957-1971. Hann var grimmur harðstjóri sem talið er að hafi látið myrða um þrjátíuþúsund manns á valdaferli sínum. Jafnframt stal hann gríðarlegum fjárhæðum frá þjóðinni.

Sonur hans sem kallaður var Baby Doc tók við forsetaembættinu þegar faðir hans lést árið 1971. Hann reyndist ekki föðurbetrungur og stal öllu steini léttara frá þjóð sinni.

Hann hrökklaðist loks úr landi árið 1986 og settist að í Frakklandi með fjölskyldu sína. Þar hélt hann sig ríkmannlega á stolnu fé þeirra feðga.

Duvalier fjölskyldan átti bankareikninga víða um heim. Meðal annars í Sviss þar sem gerð var tilraun á síðasta ári til þess að gera þá upptæka.

Upptakan var staðfest í undirrétti en hæstiréttur sneri því við nokkrum klukkustundum áður en jarðskjálftinn mikli reið yfir Haítí. Ekki var hinsvegar skýrt frá úrskurði hans fyrr en í dag.

Í úrskurðinum sagði að rétturinn ætti ekki annarra kosta völ þar sem hinir meintu glæpir væru fyrndir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×