Innlent

Tekist á fram á síðustu stundu

Heimir Már Pétursson skrifar
Össur Skarphéðinsson.
Össur Skarphéðinsson.

Tekist var á um það fram á síðustu stundu innan Evrópusambandsins áður en formlegar aðildarviðræður hófust við Íslendinga, hvort hefja ætti viðræðurnar án þess að niðurstaða hefði fengist í Icesave-deilunni. Utanríkisráðherra segir Íslendinga eiga öfluga bandamenn innan sambandsins og ekki muni slitna upp úr viðræðunum vegna Icesave.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segir þann skilning ríkjandi innan Evrópusambandsins að Icesave-deila Íslendinga við Breta og Hollendinga sé aðskilið mál frá aðildarviðræðum Íslands við sambandið. En tekist hafi verið á um það innan Evrópusambandins skömmu fyrir ríkjaráðstefnu Íslands og sambandsins í lok júlí hvort hefja ætti alvöru viðræður við Íslendinga án niðurstöðu í Icesave.

„Það er engin leynd sem hvílir yfir því að vikuna áður en ríkjaráðstefnan hófst voru harðar umræður innan Evrópusambandsins að hálfu nokkurra þjóða um hvort ætti að leyfa málinu að ganga svona langt. Niðurstaða í þeim umræðum náðist ekki fyrr en daginn áður en ég fór á minn fund með Evrópusambandinu," segir utanríkisráðherra.

Það hafi hins vegar komið í ljós að Íslendingar ættu öflugan stuðning meðal margra aðildarríkja sambandsins.

„Ekki bara hjá vinum og frændþjóðum og vinum í Eystrasaltinu, heldur líka hjá Spánverjum og Þjóðverjum. Þannig að það var þess vegna sem þetta tókst," segir Össur.

Hins vegar hafi það sýnt sig í ferlinu að Bretar og Hollendingar hafi reynt að blanda saman Icesave-deilunni og aðildarviðræðunum og muni ef til vill reyna það áfram.

„Ég er alveg sannfærður um að það er hægt að ljúka þessu ferli með sómasamlegum hætti án þess að Icesave trufli það þannig að samningaviðræður slitni á einhverju stigi. En það getur vel verið og ég er búinn undir það, að þetta geti fúnkerað eins og möl sem hent er í gangverkið. Þá verða menn bara að komast yfir það. Viðræðurnar munu ekki slitna á þessu," segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.