Erlent

Fengu langþráðar sígarettur

Námuverkamennirnir hafa verið fastir neðjanjarðar í meira en mánuð.
Námuverkamennirnir hafa verið fastir neðjanjarðar í meira en mánuð. Mynd/AP
Námuverkamennirnir sem lokuðust í koparnámu í norðurhluta Chile fyrir rúmum mánuði hafa nú loksins fengið sígarettur sem var það fyrsta sem þeir báðu um þegar náðu sambandi við björgunarsveitarmenn.

33 Chilebúar hafa nú verið fastir neðanjarðar í meira en mánuð, en þeir festust í námunni þegar námagöng féllu saman í ágúst. Mennirnir búa við þröngan kost í litlu rými á 700 metra dýpi. Í síðasta mánuði fengu þeir meðal annars vatn, mat, spil og þá var símalína lögð niður til mannanna svo þeir gætu talað við fjölskyldu og vini.

Nú hefur verið lögð rafmagnslína til þeirra og munu birtuskilyrði batna til muna og þá hefur fyrstu sígarettupökkunum verið komið til þeirra. Breska fréttstofan Sky greinir frá því námuverkamennirnir komi til með að fá tvo sígarettupakka á dag sem reykingamenn í hópnum verða síðan að deila sín á mili. Sígarettur voru það fyrsta sem mennirnir báðu um þegar þeir komust í samband við björgunarsveitarmenn.

Mynd/AP
Yfirvöld í Chile vonast til að hægt verði að bjarga mönnunum með því að bora til þeirra göng á næstu mánuðum. Þangað til hefur mönnunum verið úthlutuð ýmis verkefni til að halda þeim uppteknum.

Forstjóri námafyrirtækisins mætti fyrir þingnefnd í byrjun mánaðarins þar sem farið var yfir málið og baðst hann innilegrar afsökunar. Allar eignir fyrirtækisins hafa verið frystar af stjórnvöldum til að standa straum af greiðslu skaðabóta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×