Skoðun

Sex fjárfestingarboðorð fyrir lífeyrissjóði

Hans Guttormur Þormar skrifar

Á Íslandi er skylduaðild að lífeyrissjóðum. Þegar stjórnar­menn í lífeyrissjóðum segjast standa vörð um hagsmuni sjóðfélaga sinna eru þeir í raun og veru að segja að þeir séu að gæta að hagsmunum íslensku þjóðarinnar.

Ábyrgð, völd og fjárfestingarstefna

Þær eignir sem íslenska þjóðin á í lífeyrissjóðunum eru af stærðargráðunni 1.500 til 2.000 milljarðar, allt eftir því hvernig eignir þeirra eru metnar. Þessu fjármagni fylgir bæði ábyrgð og völd. Þrátt fyrir að lífeyrissjóðakerfið hafi tapað miklu við fall bankanna hefur lítið farið fyrir því að forsvarsmenn stærstu lífeyrissjóðanna láti völdin í hendur annarra, hvað þá að þeir ætli sér að taka upp öðruvísi fjárfestingarstefnu.

Þar sem ég er einn af eigendum þessara sjóða vil ég hafa eitthvað um það að segja í hverju er fjárfest og í hverju er ekki fjárfest. Það er nefnilega ekki nægjanlegt að hugsa þröngsýna skammtímahugsun um arðvænlegar fjárfestingar heldur þarf líka að hugsa fjárfestingar til framtíðar með hagsæld og eðlilega uppbyggingu íslensks samfélags í huga. Þjóðin er enda eigandi þessara lífeyrissjóða sem eru langáhrifamestu fjárfestingaraðilarnir á Íslandi. Völd okkar til að segja til um hvernig hagkerfið á að byggjast upp og hvernig upplýsingastreymi fyrir­tækja á að vera liggja meðal annars í þessu fjármagni.

Hér fyrir neðan eru nokkrar einfaldar leikreglur fyrir þá sem sjá um fjárfestingar fyrir lífeyris­sjóði. Þeir sem halda því fram að ekki sé hægt að framfylgja þessum reglum vilja í raun og veru viðhalda því bóluhagkerfi, væntingagróða og sjálftöku­kapítalisma sem tröllriðið hefur heiminum síðustu áratugi. Þeir ganga þá erinda annarra fjárfesta en ekki íslensku þjóðarinnar. Því verður að linna.

1. Ef lífeyrissjóður fjárfestir í fyrirtæki ber honum að tilkynna það opinberlega. Lífeyrissjóðurinn er þá jafnframt búinn að gefa út það vottorð að þetta fyrirtæki sé í eðlilegum rekstri á sínu sviði og öll uppbygging þess, framtíðar­markmið og skipulag sé eins gott og kostur er. Eftirlit með því að þessu sé fylgt eftir til framtíðar er á ábyrgð stjórnarmanna frá lífeyrissjóðunum. Með þessu ákvæði þrýstir fjármagnið á að rekstur fyrirtækja sé á faglegum grunni reistur og það sé eftir­sóknarvert fyrir hvert fyrirtæki að fá þessa fjárfestingu inn í félagið. Jafnframt þrýstir það á stjórnarmenn lífeyrissjóðanna að standa faglega að öllum fjárfestingum.

2. Ekki er fjárfest í fyrirtækjum sem eru að einhverju leyti í eigu skúffufyrirtækja, óþekktra erlendra/innlendra aðila eða með öðrum hætti þannig að eignarhald sé ógegnsætt. Ekki er fjárfest í fyrirtækjum sem nota pappírsfyrirtæki um heim allan til að koma hagnaði undan skatti (t.d. þó varan berist beint frá A til Ö en greiðslan frá A gegnum allt stafrófið til Ö). Fjárfesting ofangreindra aðila í þessum fyrir­tækjum í framtíðinni er einnig bönnuð. Með þessu tryggir fjármagn lífeyrissjóðanna það að enginn möguleiki sé á að tengdir hagsmunaaðilar geti bakstýrt eða mokað peningum út úr fyrirtækjunum í formi þjónustugjalda, fyrirgreiðslna eða annarra fjármagnsaðgerða. Fjárfestingar eru gerðar vegna þess að fyrirtækið er í eðlilegum rekstri og eðlilega fjármagnað. Þetta eru miklu strangari fjárfestingar­kröfur til fyrirtækja en kaup­hallir hafa gert, en gæti í framtíðinni orðið til þess að kauphallir yrðu að gera þessar sömu kröfur. Sérstaklega ef samvinna næðist við lífeyrissjóði annarra landa um svipaðar reglur.

3. Ekki er fjárfest í fyrir­tækjum sem framleiða efni eða áhöld sem skaðað geta náttúruna, þ.m.t. lífverur (eiturefni, stríðstól o.s.frv.). Með þessu tekur fjármagnið að sér að þrýsta á um aukna samfélagsábyrgð fyrirtækja.

4. Ekki er fjárfest í fyrirtækum á Íslandi sem koma sér undan skattgreiðslum með því að greiða afborganir lána til tengdra aðila/eigenda (t.d. móður­félaga) erlendis. Með þessu er þrýst á að fyrirtæki greiði sína skatta og skyldur í því landi sem þau starfa. (Ath.: Þetta getur verið mjög erfitt að meta.)

5. Lífeyrissjóðir skulu á hverjum tíma nota ákveðna prósentu af sínu fjármagni til að fjárfesta í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum auk óskráðra félaga svo lengi sem þau uppfylla ofangreindar kröfur. Með þessu tryggir fjármagnið aukna fjölbreytni í hagkerfinu og fjölda nýrra starfa og framgang hugmynda og nýjunga.

6. Lífeyrissjóðir skulu aðstoða við fjármögnun og rekstur elli- og hjúkrunarheimila eftir því sem þörf er á. Með þessu tryggir fjármagnið, sem við eigum, Íslendingum öllum áhyggjulaust ævikvöld.

Er það ekki málið?

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Skoðun

Ótti

Gunnar Dan Wiium skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.