Lífið

Ódauðlegt verk Áhugaleikhúss atvinnumanna

Sýningar Áhugaleikhússins eru myndrænar eins og þessi mynd frá forsýningu verksins á LOKAL ber með sér.
Sýningar Áhugaleikhússins eru myndrænar eins og þessi mynd frá forsýningu verksins á LOKAL ber með sér.

Í kvöld frumsýnir leikhópurinn Áhugaleikhús atvinnumanna Ódauðlegt verk um stríð og frið eftir Steinunni Knútsdóttur í Hafnarfjarðarleikhúsinu. Verkið, sem var forsýnt á alþjóðlegu leiklistarhátíðinni LOKAL, er viðleitni til þess að skilja hvað það er í mannlegu eðli og samskiptum sem leiðir til átaka og ófriðs og er þriðja verkið í fimm verka röð eða kvintólógíu um mannlegt eðli sem leikhópurinn vinnur að með Steinunni.

Verkin eru rannsókn á áráttuhegðun mannkyns og ófullkomleika. Þau feta sig inn í augnablikið þar sem maðurinn stendur berskjaldaður frammi fyrir guði og viðurkennir vanmátt sinn. Um leið og verkin eru hvert um sig rannsókn á mannlegu eðli eru þau einnig tilraun. Hvert verk um sig tekur á eiginleikum, þáttum eða áráttum í mannlegri hegðun og tilvist og varpa nýju ljósi á þekktar staðreyndir.

Áhugaleikhús atvinnumanna er hópur atvinnufólks í sviðslistum sem hefur áhuga á að frelsi ríki til óháðrar listsköpunar í samfélaginu. Leikhópurinn lítur á leiksýningar sínar sem vettvang til að velta áleitnum spurningum fyrir sér þó ekki sé langt í kímni og kæruleysi í vinnslu verkanna en frelsi hans snýst ekki síst um að skoða listsköpunarferlið sem frelsandi og leysandi afl í fögnuði og gleði.

Markmiðið með starfinu er að að skapa framsækin og áleitin sviðslistaverk sem í eðli sínu eru samtal við áhorfendur og eru óháð markaðsöflum. Leikhúsið vill ekki fara í viðskiptasamband við áhorfendur sína sem er oftast það eina sem áhorfendum er boðið upp á í leikhúsum landsins og býður þess vegna áhorfendum í samtal án endurgjalds og þiggur ekki aðgangseyri á sýningar sínar.

Listamenn leikhússins fengu nýverið úthlutað listamannalaunum svo nú geta þeir lagt meira í sýningar sínar. Þannig koma að sýningunni nú á verkinu aðilar sem ekki voru með í fyrra sinnið þegar verkið var forsýnt á LOKAL. Hilmar Örn Hilmarsson, textasmiðurinn Hrafnhildur Hagalín, og kórstjórinn Margrét Pálmadóttir.

Hópinn skipa sem fyrr Aðalbjörg Árnadóttir, Arndís Hrönn Egilsdóttir, Árni Pétur Guðjónsson, Hannes Óli Ágústsson, Hera Eiríksdóttir, Jórunn Sigurðardóttir, Kristjana Skúladóttir, Lára Sveinsdóttir, Marta Nordal, Orri Huginn Ágústsson, Ólöf Ingólfsdóttir, Sverrir Einarsson og Sveinn Ólafur Gunnarsson. Höfundur verksins og leikstjóri er Steinunn Knútsdóttir.




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.