Viðskipti innlent

Útgjöld fyrir hvern íbúa tvöfaldast

Útgjöld til sumra þátta hafa dregist saman, til dæmis til umhverfismála.Fréttablaðið/gva
Útgjöld til sumra þátta hafa dregist saman, til dæmis til umhverfismála.Fréttablaðið/gva

Útgjöld hins opinbera á hvern íbúa landsins hafa nærri tvöfaldast milli áranna 1980 og 2008. Útgjöldin voru á föstu verðlagi 1.087 krónur á hvern íbúa árið 1980 en voru komin í 2.071 krónu árið 2008, að því er fram kemur í úttekt Hagstofu Íslands.

Á þessu árabili hafa útgjöld hins opinbera vaxið frá því að vera 34,1 prósent af landsframleiðslu í 44,8 prósent. Útgjöld ríkissjóðs jukust um 4,7 prósentustig, úr 27,5 prósentum af landsframleiðslu í 32,7 prósent. Útgjöld sveitarfélaga sem hlutfall af landsframleiðslu tvöfölduðust, úr 7,1 prósenti í 14 prósent.

Þrír stærstu málaflokkarnir, velferðarmál, fræðslumál og heilbrigðismál tóku til sín 25,3 prósent af landsframleiðslu árið 2008. Tíu árum fyrr, árið 1998, tóku þessir málaflokkar 22,6 prósent af landsframleiðslunni.

Framlög til ýmissa málaflokka hafa aukist mikið á áratugnum milli 1998 og 2008. Þannig hafa útgjöld til efnahags- og atvinnumála nærri þrefaldast, úr 6,7 prósentum af landsframleiðslu í 19,5 prósent. Útgjöld til menntamála hafa aukist um 15,7 prósent, og útgjöld til menningar- og íþróttamála um 31,2 prósent.

Aðrir flokkar hafa setið eftir. Aukning til lög­gæslu og dómsmála hefur aukist um 4,1 prósent, og útgjöld til umhverfismála dregist saman um 5,6 prósent. - bj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×