Erlent

Blóðug spor Mossad

Óli Tynes skrifar
Þótt Ísraelar hvorki játi né neiti aðild er talið nokkuð víst að það var leyniþjónustan Mossad sem myrti háttsettan Hamas foringja í Dubai í síðasta mánuði.

Hann hefur verið umsvifamikill í vopnakaupum fyrir hreyfinguna.

Mossad hefur myrt óvini Ísraels í mörgum löndum í gegnum árin. Til dæmis eftir árásina á ísraelska íþróttamenn á Ólympíuleikunum í Munchen árið 1972. Samtökin Svarti september myrtu þá ellefu íþróttamenn.

Í kjölfarið gerði Mossad áætlun sem hlaut nafnið reiði Guðs og þá hófst alda morða um alla Evrópu og Miðausturlönd.

Gleyma aldrei

Og Ísraelar eru langræknir. Næstu tuttugu árin voru sérstakar morðsveitir Mossad í því verkefni að leita uppi og drepa alla þá sem á einhvern hátt voru taldir hafa komið nálægt árásinni í Munchen.

Þetta komst í hámæli þegar útsendarar Mossad myrtu arabiskan þjón í Lillehammer í Noregi árið 1973.

Það kom í ljós að Mossad hafði farið mannavillt og þjónninn var alsaklaus. Norðmenn handtóku nokkra úr Mossad sveitinni og dæmdu þá til fangelsisvistar en þeim var sleppt og sendir heim árið 1975.

Mossad lét þetta þó ekki á sig fá. Það var haft upp á manninum sem þjónninn hafði verið talinn vera og hann var myrtur.

Engir vita nema Ísraelar hversu margir voru ráðnir af dögum en þeir skiptu einhverjum tugum.

Og það er til marks um fagmennsku leyniþjónustunnar ef svo má að orði komast að Lillehammer var eina skiptið þar sem eitthvað fór úrskeiðis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×