Erlent

Drög fjárlaga kynnt fyrirfram

Ákvörðun kynnt Olli Rehn, framkvæmdastjóri efnahags- og peningamála, ásamt Elenu Salgado, fjármálaráðherra Spánar, og Michel Barnier, framkvæmdastjóra innri markaðs og þjónustu.
Ákvörðun kynnt Olli Rehn, framkvæmdastjóri efnahags- og peningamála, ásamt Elenu Salgado, fjármálaráðherra Spánar, og Michel Barnier, framkvæmdastjóra innri markaðs og þjónustu. nordicphotos/AFP
Fjármálaráðherrar Evrópusambandsins hafa komið sér saman um nýtt fyrirkomulag, sem á að tryggja að fjárlög einstakra ríkja á evrusvæðinu ógni ekki fjármálastöðugleika alls evrusvæðisins.

Eitt helsta nýmælið er að hvert ríki þarf á hverju vori að kynna megindrög fjárlaga næsta árs fyrir bæði framkvæmdastjórn sambandsins og ráði aðildarríkjanna, sem fá þá öll tækifæri til að gagnrýna fjárlög hvers annars áður en endanleg útgáfa þeirra er samþykkt heima fyrir í hverju ríki að hausti.

„Ríkisstjórn sem kynnir fjárlagaáætlun með miklum halla þarf þá að réttlæta það gagnvart samherjum sínum, í hópi fjármálaráðherranna," segir Herman van Rompuy, forseti ráðsins, í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér að loknum fundi fjármálaráðherranna á mánudagskvöld.

Ráðherrarnir samþykktu einnig að tekið verði fyrr í taumana þegar fjármál einstakra ríkja stefna í óefni, en ekki látið duga, eins og hingað til hefur tíðkast, að grípa til aðgerða þegar viðmiðunarmörkin hafa þegar verið rofin.

Áður en nýja fyrirkomulagið tekur gildi þarf leiðtogaráð sambandsins að veita samþykki sitt. Næsti fundur leiðtogaráðsins verður haldinn 17. júní.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×