Viðskipti innlent

Securitas fylgir ekki með í sölu Securitas

SECURITAS Deilur eru uppi um vörumerkið Securitas og myndmerkið sem því fylgir. Það er í eigu sænsks fyrirtækis sem hafnar því að það verði selt með félaginu úr þrotabúi Fons.fréttablaðið/anton
SECURITAS Deilur eru uppi um vörumerkið Securitas og myndmerkið sem því fylgir. Það er í eigu sænsks fyrirtækis sem hafnar því að það verði selt með félaginu úr þrotabúi Fons.fréttablaðið/anton

Sænska félagið Securitas AB hafnar því að vörumerkið Securitas fylgi með í kaupunum á þrotabúi öryggisfyrirtækisins Securitas hér á landi. Vörumerkið er skráð í eigu sænska fyrirtækisins hjá Einkaleyfisstofunni.

Securitas er hluti þrotabús Fons, sem var í eigu Pálma Haraldssonar. Fyrirtækið er nú í söluútboði. Fyrst var ætlunin að hafa það opið, en fyrir skemmstu var ákveðið að halda því lokuðu. Heildarkröfur í búið nema rúmum 34 milljörðum.

Fyrri umferð útboðsins hefur farið fram og bárust 18 tilboð í fyrirtækið. Þau eru óskuldbindandi, en í framhaldi valdi skiptastjóri átta fjárfesta sem fá að kynna sér frekari gögn sem ekki má fjarlægja úr sérstöku gagnaherbergi.

Líkt og Fréttablaðið greindi frá deildu Landsbankinn og skiptastjóri um kröfu bankans um fullgilt veð í fyrirtækinu. Sú deila er fyrir héraðsdómi, en samkomulag hefur náðst um að söluverðið verði lagt til hliðar þangað til botn er kominn í deiluna. Landsbankinn hefur áskilið sér rétt til að ganga inn í kaupin, nái ekkert tilboðanna lágmarksupphæð.

Gerð var krafa til þeirra sem byðu í fyrirtækið um að þeir gætu sýnt fram á að þeir ættu að lágmarki þrjú hundruð milljónir króna eða gætu uppfyllt skilyrði með lánsfjármagni úr banka. Heimildir blaðsins herma að bankinn krefjist 500 milljóna króna að lágmarki fyrir Securitas.

Meðhöndlun þrotabús Fons, þar með talið Securitas, hefur verið nokkuð gagnrýnd. Meðal gagnrýnenda er Sigurður G. Guðjónsson, sem er lögmaður Pálma. Í pistli á Pressunni setti hann meðal annars spurningarmerki við það hvers vegna skiptastjóri væri nú með aðstoðarmönnum sínum að selja hlutabréf Fons í Securitas. Aðrir í fjármálalífinu, sem Fréttablaðið hefur rætt við, hafa einnig gagnrýnt að skiptastjóri sjái sjálfur, eða aðstoðarmenn hans, um sölu hlutabréfa.

Óskar Sigurðsson skiptastjóri svarar því til að á fyrsta skiptafundi hafi verið bókað hverjir væru aðstoðarmenn skiptastjóra. Samkvæmt gjaldþrotaskiptalögum ráðstafi skiptastjóri eignum þrotabús. Ferli laganna hafi verið fylgt. Þar að auki séu óháður endurskoðandi og sjálfstæður fyrirtækjaráðgjafi til aðstoðar og unnið sé í samvinnu við fyrirtækjasvið Nýja Landsbankans.

Þá áréttar hann að engum veðsettum eignum sé ráðstafað án samkomulags við veðhafa.

kolbeinn@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×