Viðskipti innlent

Um 14.000 viðskiptavinir nýta sér lausnir Arion Banka

Samtals hafa um 14000 viðskiptavinir Arion banka nýtt sér lausnir bankans eða opinberu úrræðin sem eru í boði.

Í tilkynningu um málið segir að á annað þúsund einstaklingar og fjölskyldur hafa nýtt sér sérstakar lausnir Arion banka þær 9 vikur sem þær hafa staðið til boða. Ungt fólk með sína fyrstu íbúð er þar í miklum meirihluta. Um 35% viðskiptavina með erlend íbúðalán hafa nýtt sér höfuðstólsleiðréttingu Arion banka.

Að meðaltali hefur starfsfólk Arion banka afgreitt um 150 lánabreytingar á viku. Lausnir bankans taka mið af misjafnri skuldastöðu viðskiptavina og því hvort um er að ræða erlend eða innlend húsnæðislán. Samhliða því að taka á móti fyrirspurnum hefur bankinn að eigin frumkvæði haft samband við þá viðskiptavini sína sem hvað verst eru staddir til þess að kynna þeim þær leiðir sem í boði eru. Lausnir bankans standa viðskiptavinum til boða fram til 1. júlí næstkomandi.

Ef viðskiptamenn Arion banka sem eru greiðendur erlendra lána fá sér dæmdan betri rétt í Hæstarétti, áréttar bankinn að þeir missa ekki þann rétt þó þeir hafi skuldbreytt lánum sínum yfir í íslenskar krónur.

Arion banki hefur einnig ákveðið að krefjast ekki uppboða vegna vangoldinna húsnæðislána til loka ársins 2010. Það er óháð því hvort um er að ræða innlend eða erlend lán.

Hermann Björnsson, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Arion banka segir ljóst að bankinn komi til móts við vanda margra viðskiptavina. „Við höfum fjölbreyttar lausnir í boði fyrir viðskiptavini og leitumst við að finna ásættanlegar leiðir fyrir fólk í skuldavanda. Okkar markmið er að vera búin að finna hentugar lausnir með öllum sem búa við skuldavanda fyrir sumarið," segir Hermann í tilkynningunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×