Erlent

500 í haldi á Jamaica - Coke gengur enn laus

MYND/AFP

Lögreglan á Jamaica hefur handtekið rúmlega 500 manns í aðgerðum síðustu daga en í höfuðborginni Kingston hefur verið barist í fjóra daga þar sem yfirvöld vilja hafa hendur í hári Christophers Coke, valdamesta eiturlyfjabaróns eyjunnar. Aðgerðin hefur misheppnast hingað til enda nýtur Coke mikilla vinsælda í Tivoli Gardens fátækrahverfinu þar sem hann hefst við. Talið er að 44 hafi látist í átökunum hið minnsta en nokkur ró virðist hafa færst yfir borgina síðasta sólarhringinn.

Bandaríkjamenn hafa lengi krafist þess að Coke verði framseldur enda gruna þeir hann um að vera höfuðpaurinn í viðamiklu eiturlyfjasmygli til landsins. Stjórnvöld á Jamaica létu loks til skarar skríða gegn Coke en liðsmenn hans eru gríðarlega vel vopnum búnir og hafa yfir að ráða nýtísku vélbyssum og jafnvel eldflaugavörpum.

Og nú hriktir í stoðum stjórnkerfis Jamaica vegna málsins en forsætisráðherrann Bruce Golding hefur verið sakaður um að vera náinn eiturlyfjabaróninum. Hann kom fram í fjölmiðlum í dag og bar af sér sakir og vildi ekkert kannast við að vera í tengslum við Coke. Það voru breska blaðið The Independent og bandaríska fréttastöðin ABC sem ásökuðu ráðherrann um að tengjast Coke.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×