Erlent

Goðsögn kveður Hvíta húsið

Óli Tynes skrifar
Helen Thomas með Barack Obama sem færði henni köku á síðasta afmælisdegi hennar.
Helen Thomas með Barack Obama sem færði henni köku á síðasta afmælisdegi hennar. Mynd/AP

Helen Thomas aldursforseti blaðamanna sem flytja fréttir frá Hvíta húsinu í Washington hefur hætt störfum.

Thomas sem er 89 ára gömul hætti þó ekki fyrir aldurs sakir. Hún neyddist til þess að hætta eftir að hún sagði við gyðingaprest að Ísraelar ættu að hunskast frá Palestínu og flytja heim til Þýskalands eða Póllands.

Þetta vakti upp slíkt fárviðri mótmæla að vinnuveitandi hennar Hearst blaðasamsteypan ákvað að láta hana fara.

Thomas baðst margfaldlega afsökunar en það dugði ekki til. Hún hefur löngum verið þekkt fyrir andúð sína á Ísrael. Hún er fædd og uppalin í Bandaríkjunum, en er af arabiskum uppruna.

En Thomas á sér sína verjendur sem eru ekki par hressir með gyðingaprestinn sem hún ræddi við.

Það var í garðsamkvæmi í Hvíta húsinu. Presturinn var með sína eigin upptökuvél sem hann rak framan í hana og spurði hvort hún vildi eitthvað segja um Ísrael.

Þetta var rétt eftir að níu manns voru skotnir til bana þegar Ísraelar réðust um borð í hjálparskip á leið til Gaza.

Ummæli hennar voru svo ekki sett á netsíðu prestsins fyrr en fimm dögum síðar. Eftir það var hann í forystusveit þeirra sem kröfðust þess að henni yrði bannaður aðgangur að Hvíta húsinu og að hún yrði rekin úr starfi.

Mörgum vinum Helen Thomas finnst sem gamla konan hafi verið leidd þarna í gildru. Hún sé kannski ekki alveg eins skörp og á árum áður.

En Helen Thomas er goðsögn í lifanda lífi. Hún hefur fylgst með ríkisstjórnum Bandaríkjanna síðan Eisenhower var forseti.

Og hún hefur verið blaðamaður í Hvíta húsinu síðan Kennedy var forseti. Hún hefur skrifað fjölda bóka, unnið til fjölda verðlauna og er heiðursdoktor hjá óteljandi háskólum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×