Viðskipti innlent

Vill 50 milljónir frá SPRON

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar
Guðmundur Hauksson.
Guðmundur Hauksson.

Kröfur í þrotabú SPRON nema um 250 milljörðum króna. Guðmundur Hauksson, fyrrverandi forstjóri, gerir tæplega fimmtíu milljóna króna launakröfu í þrotabúið.

Slitastjórn SPRON mun næstkomandi miðvikudag leggja fram kröfuskrá á fundi með kröfuhöfum. Þar verður þeim gerð grein fyrir afstöðu slitastjórnar til krafnanna. Þær koma víðsvegar að; m.a. frá Lúxemborg, Þýskalandi og Bretlandi. Alls var 211 kröfum lýst í búið og nema þær rúmlega 250 milljörðum króna. Fjórir aðilar lýstu launakröfum í búið upp á tæpar 96 milljónir króna. Guðmundur Hauksson, fyrrverandi forstjóri SPRON, á stærstu kröfuna - tæpar 50 milljónir króna. Slitastjórnin samþykkir að greiða Guðmundi tæpar 47 milljónir. Slitastjórnir gömlu bankanna hafa aftur á móti tekið þá afstöðu að hafna launakröfum allra æðstu yfirmanna.

Guðmundur varð forstjóri SPRON árið 1996 og stýrði sjóðnum þar til hann féll í mars í fyrra. Í samtali við fréttastofu sagðist Guðmundur hafa haft rúmar 3 milljónir króna í mánaðarlaun. Ástæðan fyrir launakröfunni væri sú að hann hefði haft 12 mánaða uppsagnarfrest auk þess sem inni í upphæðinni væri uppgjör á orlofi.

Til að setja gjaldþrot SPRON í samhengi þá myndu 250 milljarðar duga til að reka Félags- og tryggingarmálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið allt þetta ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×