Lífið

Árni Sveins sigurvegari á Skjaldborg

Heimildarmynd Árna Sveinssonar, Backyard, var valin besta mynd Skjaldborgarhátíðarinnar í ár. Fréttablaðið/stefán
Heimildarmynd Árna Sveinssonar, Backyard, var valin besta mynd Skjaldborgarhátíðarinnar í ár. Fréttablaðið/stefán

Skjaldborg, hátíð íslenskra heimildarmynda, var haldin í fjórða sinn um hvítasunnuhelgina. Hátíðin fór fram á Patreksfirði líkt og fyrri ár og var margt góðra gesta.

Heimildarmyndin Backyard, í leikstjórn Árna Sveinssonar, var valin besta mynd Skjaldborgarhátíðarinnar í ár. Myndin fjallar um tónlistarsenuna sem ríkir í Reykjavík í dag.

Meðal hljómsveita sem þykja einkennandi fyrir senuna og koma fram í mynd Árna eru Retro Stefson, FM Belfast, Hjaltalín og Reykjavík! Myndin var unnin í samstarfi við tónlistarmanninn Árna Plús 1 og var framleidd af Sindra Páli Kjartanssyni.





Sigurvegararnir sáttir með skjöldinn.

Aðspurður segir Árni sigurinn hafa komið honum skemmtilega á óvart. „Ég bjóst ekki við neinu áður en haldið var af stað. Ég fór með myndina til þess að prufukeyra hana fyrir áhorfendur og sjá hvernig hún legðist í menn," segir Árni.

Backyard var lokamynd hátíðarinnar og að sögn Árna skapaðist mikil stemning í kvikmyndasalnum og voru sumir áhorfendur farnir að stíga dans í takt við tónlistina í myndinni.

Inntur eftir því hvað verðlaun sem þessi hafi í för með sér segir Árni þau helst vera góða hvatningu.

„Fólk veit kannski frekar af myndinni núna og þetta gerir mér einnig auðveldara fyrir ef ég ætla að koma henni á framfæri erlendis. Auk þess virkar þetta mjög hvetjandi fyrir okkur sem að myndinni stöndum og ætlum við nú að fara af auknum krafti í það að koma henni í kvikmyndahús hér heima," segir Árni.

sara@frettabladid.is




Tengdar fréttir

Fjórða Skjaldborgarhátíðin tilbúin

Aðstandendur heimildarmyndahátíðarinnar Skjaldborg eru búnir að velja um þrjátíu nýjar íslenskar myndir til sýningar á hátíðinni, sem fer fram á Patreksfirði um Hvítasunnuhelgina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.