Handbolti

Guðjón Valur: Sárt að ná ekki sigrinum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Vín skrifar
Mynd/DIENER/Leena Manhart

Guðjón Valur Sigurðsson segir að það hafi verið sárt að hafa ekki náð að landa tveimur stigum úr leiknum gegn Króatíu á EM í handbolta í dag.

„Við höfðum alla möguleika til að vinna leikinn,“ sagði Guðjón Valur.

„Við hefðum kannski mátt vera klókari þegar við vorum nokkrum mörkum yfir en við vorum að fá allt of mikið af brottvísunum. Ég þarf að skoða leikinn aftur áður en ég gagnrýni dómarana að óþörfu en þær virkuðu nokkuð ódýrar.“

„Við þurfum að skoða hvort þetta hafi verið eitthvað sem var í okkar höndum eða hvort við vorum fíflaðir,“ bætti hann við.

„En mér fannst við vera með þá allan tímann. Það var sárt að ná bara jafntefli þó svo að þeir eiga síðustu sóknina og Bjöggi ver síðasta boltann. Það er auðvitað gott en við hefðum getað hangið aðeins lengur á þessu 2-3 marka forskoti okkar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×