Erlent

Berlusconi: Innflytjendur óvelkomnir en sætu stelpurnar mega vera

Silvio Berlusconi forsætisráðherra Ítalíu er ekki þekktur fyrir að liggja á skoðunum sínum þegar kemur að ólíklegustu málefnum. Varla líður mánuður án þess að einhver ummæli forsætisráðherrans veki hneykslun og í gær hélt hann uppteknum hætti þegar hann ræddi málefni innflytjenda við blaðamenn að loknum fundi með kollega sínum frá Albaníu.

Rétt áður höfðu forsætisráðherrarnir skrifað undir samkomulag á milli landanna að herða gæslu á Adríahafi til þess að stemma stigu við straumi ólöglegra innflytjenda frá Albaníu til Ítalíu. Þá er leiðin algeng smygleið hjá þeim sem stunda mansal.

Eftir að hafa svarað spurningum blaðamannanna um þetta alvarlega málefni bætti Berlusconi því við að þótt hann væri ákafur stuðningsmaður þess að sporna við straumi ólöglegra innflytjenda til landsins þá hefði hann sagt kollega sínum frá Albaníu að sætu stelpurnar mættu alveg koma eftir sem áður.

Eins og gefur að skilja ollu ummælin miklu fjaðrafoki hjá anstæðingum forsætisráðherrans.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×