Erlent

Fann börnin á Facebook eftir fimmtán ár

Óli Tynes skrifar

Í fimmtán ár hafði móðir í Kaliforníu leitað sonar síns og dóttur. Faðir þeirra hvarf með þau að heiman árið 1995 og síðan hafði hún hvorki séð þau né heyrt.

Lögreglurannsókn og leit hafði ekki skilað neinum árangri. Í mars sló konan af rælni nafn dóttur sinnar inn á Facebook. Og fann hana.

Dóttirin er nú 17 ára og drengurinn 16. Þegar þær náðu sambandi á Facebook var dóttirin hikandi við að taka upp samband við móður sína á nýjan leik.

Svar hennar varð þó til þess að hægt var að rekja slóðina að heimili þeirra. Dagblaðið Boston Herald segir að faðirinn hafi nú verið handtekinn og börnin tekin af honum.

Þau eru á heimili hjá óskyldum í Flórída og bíða þess að dómstólar leysi úr flækjunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×