Þorkell Sigurlaugsson skrifar um háskólastarf á Íslandi.
Á næsta ári eru 100 ár síðan háskólastarf hófst á Íslandi í Alþingishúsinu við Austurvöll. Árið 1940 flutti Háskóli Íslands í nýja og glæsilega byggingu austan Suðurgötu. Það var mikið átak á sínum tíma enda höfðu verið miklir erfiðleikar í efnahagslífinu og þeir svartsýnustu jafnvel spáð þjóðargjaldþroti. Stofnun Háskóla Íslands og glæsileg uppbygging hans á síðustu öld var eitt mikilvægasta verkefnið við að þróa nútímalegt velferðarsamfélag á Íslandi þar sem góð menntun var lykillinn að hagsæld þjóðarinnar og um leið liður í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Happdrætti Háskóla Íslands, stjórnvöld, fyrirtæki og einstaklingar hafa stutt dyggilega við uppbyggingu húsnæðis Háskóla Íslands í gegnum tíðina, enda skiptir gott húsnæði miklu máli fyrir gæði kennslu og rannsókna.
Fjárhagsstaða HR er góðRekstur HR hefur verið jákvæður undanfarin ár. Þannig hefur verið hægt að takast á við kostnaðarsama flutninga og akademíska uppbyggingu háskólans. Næstu ár verða vissulega erfið eins og hjá öllum öðrum sem þurfa að takast á við niðurskurð. Mikilvægt er að stjórnvöld gangi ekki of langt í niðurskurði til háskólanna, því menntakerfið er nú sem fyrr ein af grunnstoðum samfélagsins auk þess sem þekkt er að menntun og nýsköpun gegna lykilhlutverkum í endurreisn atvinnulífsins.
Til að mæta auknum kostnaði og lægri framlögum frá ríkinu til háskólastarfsemi, hefur HR eins og aðrir háskólar ráðist í ýmsar nauðsynlegar aðhaldsaðgerðir, m.a. hefur skólinn lækkað rekstrarkostnað og laun starfsmanna. Einnig var á árinu 2008 ákveðið að fresta byggingu tveggja álma nýbyggingar HR.
Mikilvægur þáttur í eflingu háskólastarfs á Íslandi
Öflugur háskóli þarf að hafa sérhannaða byggingu fyrir sína starfsemi. Það er því gleðilegur áfangi fyrir háskólamenntun og rannsóknir á Íslandi að nýbygging HR hafi risið og sé komin í notkun. Með þessari nýju aðstöðu og áframhaldandi uppbyggingu á akademískum styrk, er hægt að sinna enn betur atvinnulífsgreinum á sviði tækni- og verkfræði, viðskipta og lögfræði og öðrum lykilþáttum atvinnulífsins. Nýbygging HR ásamt öflugum akademískum styrk skólans kemur honum í fremstu röð háskóla í okkar nágrannalöndum á þeim fræðasviðum sem hann starfar.
Það er ástæða til að óska Reykvíkingum og landsmönnum öllum til hamingju með þessa háskólabyggingu og þá öflugu starfsemi sem þar mun fara fram. Það hefur verið ævintýri líkast að taka þátt í þessu verkefni og vil ég fyrir hönd Háskólans í Reykjavík þakka öllum þeim fjölmörgu sem lögðu sig fram um að gera þessa byggingu að veruleika. Hlutverk háskólanna hér á landi mun, eins og og það var á fyrstu árum lýðveldis á Íslandi á síðustu öld, vera mikilvægur þáttur í endurreisninni og við stöndum nú sterkari en áður í þeirri baráttu með okkar öfluga og fjölbreytta háskólasamfélag.
Höfundur er framkvæmdastjóri fjármála og þróunarsviðs Háskólans í Reykjavík.