Erlent

Obama vill ekki þröngva heilbrigðisfrumvarpi í gegn

Barack Obama.
Barack Obama.

Forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, hvetur öldungadeildarþingmenn á bandaríska þinginu til þess að troða ekki umdeildu heilbrigðisfrumvarpi í gegnum þingið áður en nýkjörinn þingmaður Massacuttes fylkis, repúblikaninn Scott Brown tekur sæti.

Frumvarpið, sem harðvítug átök hafa verið um síðustu mánuðina, er komið í algjört uppnám eftir að Brown var kjörinn.

Síðustu fimmtíu ár hefur demókratinn Edward Kennedy verið fulltrúi fylkisins en hann lést á síðasta ári. Sjálfur barðist Kennedy alla sína starfsævi á þingi fyrir því að bæta bandaríska heilbrigðiskerfið. Nú vill svo kaldhæðnislega til að andlát Kennedys gæti fellt frumvarpið.

En Scott Brown hefur ekki enn tekið sæti Kennedys og því sáu sumir þingmenn Demókrataflokksins sér leik á borði og koma frumvarpinu í gegnum þingið með handafli. Þessu var Obama ekki hrifinn af og sagði í viðtali við ABC fréttastöðina að honum hugnaðist ekki sú leið og hvatt því þingmenn til þess að sýna ró og bíða eftir því að Brown taki sæti sitt á þingi.

Þá telja stjórnmálaskýrendur kjör Browns beinlínis niðurlægjandi fyrir Demókrata sem hafa haldið sætinu í hálfa öld. Þá var Brown kjörinn nákvæmlega ári eftir að Obama var vígður sem forseti Bandaríkjanna.

Brown er heldur óræður sem stjórnmálamaður en í kringum 1980 sat hann meðal annars fyrir nakinn fyrir Cosmopolitan tímaritið á meðan hann stundaði nám í lögfræði. Slíkt hefur ekki þótt góður siður hjá íhaldssömum repúblikum.

Brown hefur sagt við helstu fjölmiðla Vestan hafs að kjör hans séu skilaboð kjósanda um að þeir séu orðnir þreyttir á klækjum þingmanna í Washington. Hann hefur ekkert gefið upp hver afstaða hans sé til frumvarpsins, sjálfur vill hann fara rólega í málið.


Tengdar fréttir

Scott Brown vann sögulegan sigur

Repúblikanar unnu sögulegan sigur í gær þeghar eftirmaður öldungardeildarþingmannsins Edwards Kennedy var valinn í Massachussetts ríki, en Kennedy lést fyrir nokkrum mánuðum. Massachussetts hefur lengi verið höfuðvígi Demókrata og því kom það verulega á óvart að hinn lítt þekkti Scott Brown skyldi bera sigurorð af Mörthu Coakley sem er ráðherra í ríkisstjórn Baracks Obama forseta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×