Handbolti

Sigurður Bjarnason: Við förum í úrslitaleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigurður Bjarnason, EM-sérfræðingur Vísis.
Sigurður Bjarnason, EM-sérfræðingur Vísis.
Sigurður Bjarnason, EM-sérfræðingur Vísis, spáir því að íslenska landsliðið vinni Norðmenn í dag og tryggi sér með því sæti í undanúrslitunum á laugardaginn. Sigurður sér liðið fara alla leið í úrslitaleikinn á Evrópumótinu.

„Mér lýst mjög vel á leikinn og hlakka mikið til að horfa á þetta. Það er allt eða ekkert núna. Miðað við það hvernig strákarnir hafa verið að spila í keppninni til þess þá tel ég að þeir komi til með að vinna þetta, 36-33. Það verður mjög spennandi en svo hristum við þá af okkur," segir Sigurður Bjarnason í léttum tón.

„Norsararnir eru mjög góðir og mér fannst þeir tapa ósanngjarnt á móti Dönunum. Það loðir samt alltaf við Norðmennina að þeir klikki alltaf í stórkeppnunum. Þeir hafa aldrei náð alvöru árangri í stórkeppni en standa sig oft mjög vel utan stórkeppna."

„Það er lykilatriði að við náðum að hvíla liðið í Rússaleiknum. Guðmundur lét þá alla spila og maður sá þarna Sturla koma gríðarlega sterkan inn. Hann var búinn að sitja á bekknum allan tímann en kemur svo inn. klikkar ekki á skoti og er mjög öruggur. Ég held að þetta eigi við alla leikmenn í liðinu. Það eru allir tilbúnir og Guðmundur þarf bara að nota þá. Ef hann skynjar það að menn eru ekki alveg í gangi þá þarf hann að henda næsta manni inn á völlinn."

„Við vorum ekki með Ólaf Stefánsson í jafnteflisleikjunum við þá í undankeppninni en núna erum við með Ólaf. Við erum komnir með sterkara lið. Þetta voru hörkuleikir í undankeppninni en ég held að það komi okkur meira til góða að hafa spilað við þá. Guðmundur er bara þannig að hann stúderar andstæðinginn svo rosalega. Við erum þarna með tvo leiki á móti þeim sem þeir hafa sér til halds og traust þegar þeir eru að skoða upptökur með norska liðinu."

„Við þurfum ekkert að stoppa neitt sérstaklega hjá norska liðinu en Kristian Kjelling og Borge Lund eru mjög góðir og línumaðurinn Frank Löke er rosalega leiðinlegur. Danir áttu í stökustu vandræðum með hann en hann var líka kolólöglegur. Við verðum að passa okkur á því að fara ekki í einhvern slag við þennan línumann. Danir voru alltaf með hann í fanginu en við þurfum að vera fyrir framan hann."

„Steinar Ege er mjög góður í markinu en við þurfum ekkert að óttast hann meira heldur en einhvern annan. Við vorum með Kasper Hvidt á móti okkur gegn Dönum og hann er heimsklassa markvörður. Strákarnir voru ekki að pæla í því og þurfa bara að koma sér í góð færi."

„Við komust í undanúrslitin í dag og ég held að það sé deginum ljósara að við séum að fara í úrslitaleikinn. Ég þori að fullyrða það og ét það þá bara ofan í mig ef það gengur ekki eftir. Mér finnst bara strákarnir vera það sannfærandi og það góðir," sagði Sigurður að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×