Erlent

Ísraelar þögulir um morð um Dúbaí

Óli Tynes skrifar
Myndir úr fölsuðu/stolnu vegabréfunum.
Myndir úr fölsuðu/stolnu vegabréfunum. Mynd/AP

Sendiherra Ísraels í Bretlandi hefur verið kallaður í utanríkisráðuneytið til viðræðna eftir að yfirvöld í Dúbaí nafngreindu sex Breta sem sagðir eru hafa tekið þátt í að myrða háttsettan liðsmann Hamas á hóteli í Dúbaí.

Ísraelska leyniþjónustan Mossad er grunuð um að standa á bakvið morðið, en hún hefur lengi haft það verkefni að ráða óvini Ísraels af dögum á erlendri grund.

Svo virðist sem morðingjarnir hafi notað fölsk vegabréf í nafni Bretanna sex. Þessir sex Bretar eru allir Gyðingar og allir búsettir í Ísrael. Þeir hafa lýst óhug vegna málsins og óttast hefnd Hamas.

Fjölmiðlar í Ísrael hafa skammað Mossad vegna þessa máls. Ekki fyrir að drepa óvin ríkisins á erlendri grund heldur fyrir að stofna óbreyttum borgurum í hættu með því að nota vegabréf þeirra.

Lögreglan í Dúbaí lýsti alls eftir tíu karlmönnum og einni konu sem öll eru sögð hafa notað evrópsk vegabréf.

Viðbrögð stjórnvalda í Ísrael hafa verið býsna loðin. Avigdor Lieberman utanríkisráðherra sagði þannig; -Ísrael bregst aldrei við. Ísrael hvorki játar né neita. Ég veit ekki af hverju menn gera því skóna að Mossad hafi notað vegabréfin.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×