Erlent

Ígildi vantrauststillögu

Gordon Brown sætir reglulega gagnrýni úr röðum eigin flokksmanna.
fréttablaðið/AP
Gordon Brown sætir reglulega gagnrýni úr röðum eigin flokksmanna. fréttablaðið/AP

Tveir fyrrverandi ráðherrar Verkamannaflokksins í Bretlandi vilja að skorið verði úr um hversu mikils fylgis Gordon Brown forsætisráðherra nýtur í raun innan flokksins.

Í bréfi, sem þau Geoff Hoon og Patricia Hewitt sendu þingmönnum flokksins, segja þau alvarlegan ágreining meðal flokksmanna um forystu Browns og leggja til að haldin verði leynileg atkvæðagreiðsla meðal flokksmanna, þar sem í eitt skipti fyrir öll fáist úr því skorið hvort Brown hafi í raun nægilegt fylgi flokksmanna til að leiða Verkamannaflokkinn í næstu kosningum, sem halda þarf í síðasta lagi næsta sumar.

Tillaga þeirra Hoons og Hewitts virkar í reynd sem vantrauststillaga á formann flokksins og þykir veikja stöðu hans innan flokksins, hvort sem farið verður að tillögu þeirra eða ekki.

Verkamannaflokkurinn þykir eiga litla möguleika á sigri í þingkosningunum eftir samfellda stjórnarsetu siðan 1997, fyrst undir stjórn Tony Blairs en síðan Browns sem tók við í júní 2007. Breska útvarpið BBC hafði þó eftir Tony Lloyd, formanni þingflokks Verkamannaflokksins, að enginn áhugi væri fyrir leynilegri kosningu meðal þingmanna flokksins.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×