Erlent

Yfirmenn biðjast afsökunar

Innrásin í Marja Bandarískir hermenn í átökum við talibana.
fréttablaðið/AP
Innrásin í Marja Bandarískir hermenn í átökum við talibana. fréttablaðið/AP

Mannfall almennra borgara varpaði skugga á innrás Natóherja og afganska hersins á þorpið Marja í Helmand-héraði í Afganistan.

Tvö bandarísk flugskeyti misstu marks á sunnudag og lentu á íbúðarhúsi skammt fyrir utan bæinn þar sem tólf manns biðu bana.

Atvikið þykir alvarlegt áfall fyrir trúverðugleika fjölþjóðaliðs NATO. Stanley McChrystal, yfirmaður Natóherjanna, baðst afsökunar og sagði að notkun hátæknivopna verði hætt meðan kannað er hvað gerðist.

Hamid Karzai, forseti Afganistans, var sagður í öngum sínum vegna þess sem gerðist. Fyrir árásina hafði Karzai hvað eftir annað brýnt það fyrir yfirmönnum hersins að sýna fyllstu aðgát.

Talið var að um þúsund talibanar hefðu verið í þorpinu og næsta nágrenni. Um fimmtán þúsund manna innrásarlið, skipað afgönskum, bandarískum og breskum hermönnum, réðst til atlögu á laugardag og hafa síðan jafnt og þétt þrengt að talibönum.

Yfirmenn afganska hersins segja innrásarherina hafa náð Marja og nágrenni að mestu leyti á sitt vald, mótspyrna frá talibönum sé lítil þegar haldið er inn í bæinn. Leyniskyttur hafa þó gert innrásarhernum skráveifur og komið hefur til skotbardaga.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×