Erlent

Loftslagsvísindamenn teknir til rannsóknar

Óli Tynes skrifar
Að hlýna eða ekki að hlýna, það er spurningin.
Að hlýna eða ekki að hlýna, það er spurningin.

Opinber rannsókn hefst í dag á því hvort loftslagsvísindamenn hafi hagrætt niðurstöðum rannsókna á loftslagsbreytingum.

Þeir hafa einnig verið sakaðir um að hafa gert samsæri gegn gagnrýnendum sínum, að reyna að koma í veg fyrir umræðu um verk sín og um að taka sig saman um að virða ekki lög um upplýsingafrelsi.

Segja má að þetta hafi hafist þegar birtir voru tölvupóstar sem fóru á milli vísindamanna víða um heim og vísindamanna við University of East Anglia. Skólinn hefur verið leiðandi í loftslagsrannsóknum um langt skeið.

Sá póstur þótti ekki fallegur og varð til þess að prófessor Phil Jones forstöðumaður loftslagsdeildar skólans vék úr starfi meðan rannsókn færi fram.

Ekki tók svo betra við þegar í ljós kom að spár Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna um bráðnun jökla í Himalayafjöllum reyndust tóm vitleysa.

Einnig var hrakið að rekja mætti tíða fellibyli og aðrar veðuröfgar til hlýnandi loftslags. Sú hlýnun er reyndar hætt, en vísindamenn segja að hún hefjist aftur eftir einhver ár.

Stjórnandi rannsóknarinnar á loftslagsvísindamönnunum er Sir Muir Russell. Hann hefur engin fyrri tengsl við loftslagsvísindi eða við East Anglia háskólann.

Margir lofslagsfræðingar óttast að Climategate skandalinn eins og þetta er kallað verði til þess að draga úr trúverðugleika á áratuga rannsóknum sem þrátt fyrir allt hafi verið býsna traustar.

Rannsókninni á að ljúka í vor.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×