Erlent

Ríkisstjórn Hollands fallin

Heimir Már Pétursson skrifar
Wouter Bos er leiðtogi Verkamannaflokksins. Mynd/ AFP.
Wouter Bos er leiðtogi Verkamannaflokksins. Mynd/ AFP.
Verkamannaflokkur Wouter Bos fjármálaráðherra Hollands gekk úr ríkisstjórn landsins eftir sextán klukkustunda maraþonfund ríkisstjórnarinnar sem lauk í nótt. Verkamannaflokkurinn gat ekki sætt sig við áframhaldandi þátttöku Hollendinga í hernaði vesturveldanna í suðurhluta Afganistans.

Líf hollensku ríkisstjórnarinnar hefur hangið á bláþræði undanfarnar vikur en þriggja flokka samsteypustjórn Kristilegra demókrata, Verkamannaflokksins og Kristilega bandalagsins hefur setið við völd í þrjú ár.

Við myndun stjórnarinnar var samþykkt að tólf hundruð manna herlið Hollendinga í Uruzghan í suðurhluta Afganistans yrði kallað heim fyrir 1. mars 2010. Atlantshafsbandalagið óskaði eftir því við hollsensk stjórnvöld að vera herliðsins yrði framlengd og vildi Jan Peter Belkenende forsætisráðherra og leiðtogi Kristilegra demókrata verða við þeirri ósk.

Verkamannaflokkurinn með Wouter Bos fjármálaráðherra í broddi fylkingar vildi hins vegar ekki fallast á þetta og ákvað því í nótt að ganga úr ríkisstjórninni. Belkenende forsætisráðherra hefur ekki boðað til kosninga en hann mun eiga fund með Beatrix drottningu í dag til að segja af sér eins og lög Hollands gera ráð fyrir.

Það flækir hins vegar stöðuna að drottningin er á skíðaferðalagi í Lech í Austurríki. Ekki er vitað hvort hún snýr heim vegna stjórnarkreppunnar,  hvort forsætisráðherrann fer á fund drottingar í Austurríki eða lætur nægja að biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt í gegnum síma.

Samkvæmt hollenskum lögum skulu þingkosningar ekki fara fram fyrr en 83 dögum eftir afsögn ríkisstjórnar. Kristilegir demókratar eru stærsti flokkur Hollands með 41 þingmann en Verkamannaflokkurinn er næst stærstur með 33 þingmenn. Honum er spáð miklu fylgistapi verði yrði kosið nú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×