Erlent

Konur í sókn í norskum fyrirtækjum

Óli Tynes skrifar

Konum í stjórnunarstöðum í Noregi hefur fjölgað um 41 prósent frá því á síðasta ári að sögn norska blaðsins Dagens Næringsliv.

Heildarniðurstaðan er þó kannski ekki eins góð og þetta hljómar. Á lista blaðsins yfir 500 stærstu fyrirtæki í Noregi er 41 kona í forstjórastólnum. Árið 2009 voru þær 29.

Stærð fyrirtækjanna hefur þó áhrif á stöðu kvenna. Því stærri sem fyrirtækin eru þeim mun færri eru konurnar.

Ef tekin eru þau 240 fyrirtæki sem eru skráð í kauphöllinni í Osló eru þar aðeins fjórar konur. Því til viðbótar er raunar Bente Landsnes sem er forstjóri kauphallarinnar.

-Við höfum alltaf gengið út frá því að stjórnir fyrirtækja velja þann einstakling sem er best fallinn til þess að stýra þeim, segir Landsnes í viðtali við Dagens Næringsliv.

-Nú sjáum við að æ fleiri konur taka við stjórn almenningshlutafélaga. Þetta tel ég vísbendingu um að við munum smámsaman sjá fleiri konur verða forstjóra fyrirtækja sem skráð eru í kauphöllinni sem og annarra stórra fyrirtækja.

Í almenningshlutafélögum í Noregi er gerð krafa um að fjörutíu prósent þeirra sem sitji í stjórn séu konur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×