Erlent

Þúsundir hlýddu á páfann

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Benedikt sextándi páfi hefur í nógu að snúast um jólin. Mynd/ afp.
Benedikt sextándi páfi hefur í nógu að snúast um jólin. Mynd/ afp.
Um tíuþúsund manns hlýddu á Benedikt sextánda páfa þegar að hann flutti árlega jólapredikun sína í gær. Öryggisgæsla var mikil við guðsþjónustuna enda varð páfinn fyrir árás við þetta tækifæri fyrir ári síðan. Konan sem réðst á páfa hafði áður reynt að ráðast á hann ári fyrr.

Í predikun sinni bað páfi guð að færa heiminum frið. „Hjálpaðu okkur að lifa með þér sem systkini þannig að við verðum öll fjölskylda, þín fjölskylda,‟ sagði páfinn. Páfinn mun svo flytja jólahugvekju fyrir alla heimsbyggðina í dag og halda matarboð fyrir heimilislausa í Vatíkaninu.

Einnig söfnuðust þúsundir manna saman í Betlehem, fæðingarborg frelsarans. Fouad Twal, leiðtogi kaþólikka í borginni bað á svipuðum nótum og sjálfur páfinn. „Megi hljóð kirkjuklukkna yfirgnæfa byssuhávaðan hér í Mið - Austurlöndum,‟ sagði hann, samkvæmt frásögn BBC.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×