Erlent

Undirbúin fyrir hið versta

Olíulekinn í Mexíkóflóa er versta umhverfisslys í sögu Bandaríkjanna, segir Carol Browner, orkumálaráðgjafi Hvíta hússins.

Browner, sem spurð var út í málið af sjónvarpsstöðinni NBC í gær, sagði einnig að Bandaríkin væru búin undir hið versta ef ekki tekst að stöðva lekann fyrr en í ágúst.

Olíufyrirtækið BP undirbýr nú nýjar aðferðir til að freista þess að stöðva lekann, en svokölluð „top kill"-aðferð, sem gekk út á að dæla þéttri leðju og úrgangsefnum niður í leka borholuna til að reyna að stöðva olíulekann, bar ekki árangur síðustu daga.

Doug Suttles, framkvæmdastjóri BP, sagðist í gær ekki geta útskýrt nákvæmlega hvers vegna sú aðferð hefði brugðist. „Okkur hefur ekki tekist að stöðva lekann og því teljum við að nú sé kominn tími til að reyna næsta möguleika," sagði Suttles. Hann viðurkenndi þó einnig að það væri engin leið að tryggja að ný aðferð bæri árangur, en talið er að ný tilraun geti ekki hafist fyrr en eftir fjóra daga í fyrsta lagi.

Vísindamenn telja að allt að 72 milljónir lítra af olíu hafi nú þegar lekið í sjóinn frá því að borpallur BP brann og sökk í apríl. Ellefu starfsmenn á borpallinum létust í slysinu.- kg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×