Handbolti

Guðjón Valur: Var dýrmætt að fá frídag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Vín skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson skorar hér eitt marka sinna á EM
Guðjón Valur Sigurðsson skorar hér eitt marka sinna á EM Mynd/DIENER/Leena Manhart
Guðjón Valur Sigurðsson segir að það hafi verið breyting til hins betra að dreifa leikjaálaginu á Evrópumeistaramótinu í handbolta.

Ísland hefur alltaf átt frídag á milli leikja sinna þar til í upphafi milliriðlakeppninnar í Vínarborg. Ísland mætti Króatíu á mánudaginn og svo Rússum strax á þriðjudaginn.

Frídagurinn í gær var því kærkominn. „Jú, það var nauðsynlegt að fá frí og í raun er þetta mót búið að vera mikill lúxus miðað við hvernig þetta hefur áður verið," sagði Guðjón Valur Sigurðsson við Vísi í gær.

„Á EM í Svíþjóð árið 2002 var spilað í þrjá daga í röð, svo kom frí og svo var aftur spilað þrjá daga í röð. Það er auðvitað allt of mikið."

„En ég tel að fleiri frídagar hafa þýtt að gæði handboltans eru meiri, jafnvel þótt að leikirnir séu ekki jafn hraðir og í upphafi móts. Leikur okkar gegn Rússum er þó undanskilinn því."

En Guðjón Valur segist ekki finna fyrir neinni þreytu á þessu stigi mótsins.

„Ég hef aldrei viðurkennt þreytu í miðju móti og ætla ekki að byrja á því núna," sagði hann og brosti. „Enda er ég alls ekki þreyttur."

„Það er líka mjög jákvætt hvað við erum í góðu standi. Eini maðurinn sem hefur þurft að glíma við meiðsli er Diddi [Ingimundur Ingimundarson] en aðrir eru að mestu leyti heilir."

En hann segir að andlegi þátturinn skipti miklu máli - ekki bara sá líkamlegi.

„Á meðan allt gengur vel og maður er í séns þá er miklu auðveldara að telja sér trú um að þú sért ekki þreyttur. Ef við tökum sem dæmi Rússana. Þeir eru úr leik í keppninni en eiga samt einn leik eftir. Þeir eru örugglega að morkna úr leiðindum og þreytu."

Hann segir að það verði ekkert gefið eftir í leiknum gegn Noregi í dag enda sæti í undanúrslitum mótsins í húfi.

„Það er ekkert annað sem kemur til greina eða væri ásættanlegt. Á meðan það er möguleiki á undanúrslitum duga engar afsakanir og við munum ekki fela okkur - heldur er engin ástæða til þess."

„Við látum ekki brjóta okkur á bak aftur. Við erum fullir sjálfstrausts og trúum á það sem við erum að gera og að það sé hið rétta. Vonandi verður það áfram svo gegn Noregi."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×