Erlent

Útgöngubannið í Bangkok framlengt

Frá höfuðborginni Bangkok. Óvíst er hversu margir hafa látið lífið síðastliðinn sólarhring en talið er að að allt að 14 hafi fallið í átökunum.
Frá höfuðborginni Bangkok. Óvíst er hversu margir hafa látið lífið síðastliðinn sólarhring en talið er að að allt að 14 hafi fallið í átökunum. Mynd/AP

Taílensk yfirvöld hafa framlengt útgöngubannið í Bangkok um þrjá sólarhringa. Skothvellir heyrðust í nótt og enn loga eldar í höfuðborginni.

Til harðra átaka kom í fyrrinótt í miðborg Bangkok og ákváðu leiðtogar stjórnarandstöðunnar í framhaldinu að gefa sig á vald hermanna og hvöttu mótmælendur til að hætta aðgerðum sínum. Það varð til þess að miklar óeirðir brutust út í höfuðborginni í gær og skömmu síðar var lokað fyrir útvarps- og sjónvarpsútsendingar. Kveikt var í á þriðja tug bygginga, þar á meðal kauphöll borgarinnar og nokkrum bönkum. Óeirðir breiddust einnig út til norður- og norðausturhluta landsins.

Aðgerðir stjórnarandstöðunnar hafa staðið yfir í um tvo mánuði en hún krefst þess að þing landsins verði leyst upp og að boðað verði til kosninga. Mótmælendurnir eru margir hverjir stuðningsmenn Thaksins Shinawatra, fyrrverandi forsætisráðherra, sem hrakinn var frá völdum fyrir fjórum árum.

Óvíst er hversu margir hafa látið lífið síðastliðinn sólarhring en talið er að að allt að 14 hafi fallið í átökunum, þar á meðal ítalskur fréttamaður.

Abhisit Vejjajiva, forsætisráðherra Taílands, lýsti í gær yfir útgöngubanni í allri borginni sem átti að gilda þangað til í morgun en það hefur verið framlengt um þrjá daga. Þá er einnig útgöngubann í gildi í 22 héruðum úti á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×