Lífið

Sonur Megasar útsetur tónlist föður síns

þórður magnússon Útsetur lög föður síns fyrir strengjakvintett sem verða flutt á tónleikum Listahátíðar.
fréttablaðið/vilhelm
þórður magnússon Útsetur lög föður síns fyrir strengjakvintett sem verða flutt á tónleikum Listahátíðar. fréttablaðið/vilhelm

„Ég held að þetta hafi verið uppástunga hjá pabba," segir tónlistarmaðurinn Þórður Magnússon, sonur Megasar, um samstarf sitt með föður sínum.

Hann er um þessar mundir að útsetja lög Megasar fyrir strengjakvintett sem verða flutt á Listahátíð Reykjavíkur í vor.

„Mér leist svakalega vel á þetta strax. Mér líst mjög vel á þessa nálgun, að vera bara með söngrödd og strengjahljóðfæri. Það myndast svo tær hljómur," segir Þórður.

„Þetta verður mjög spennandi. Ég hef áður sýnt því áhuga að setja pabba í þetta samhengi, órafmagnað með hljómsveit á bak við sig. Ég held að það fari honum mjög vel." Spurður hvaða lög verði á efnisskránni segir Þórður það leyndarmál en dagskráin verður um það bil klukkutíma löng.

Þetta verður í fyrsta sinn sem Þórður útsetur tónlist fyrir föður sinn. Hann hefur einu sinni stigið á svið með honum, eða þegar hann var gestagítarleikari á tónleikum í Laugardalshöll í tengslum við útgáfu plötunnar Hættuleg hljómsveit og glæpakvendið Stella sem kom út 1990.

Ekki hefur verið ákveðið hvar tónleikarnir á Listahátíð verða haldnir en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins kemur til greina að þeir verði í Laugardalshöllinni. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.