Viðskipti innlent

Ekki viðeigandi að skulda í skilanefnd

Skrifað undir eignarhald á íslandsbanka. Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, fremstur á myndinni, vissi ekki fyrr en í gær um fjárhagsstöðu fjögurra félaga tengdum einum skilanefndarmanna. Fréttablaðið/anton
Skrifað undir eignarhald á íslandsbanka. Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, fremstur á myndinni, vissi ekki fyrr en í gær um fjárhagsstöðu fjögurra félaga tengdum einum skilanefndarmanna. Fréttablaðið/anton

„Ef þetta er staðan er hún áhyggjuefni og ekki viðeigandi," segir Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins (FME) um skuldir fjögurra félaga Heimis V. Haraldssonar endurskoðanda. Þau skulduðu samtals 1,2 milljarða króna í lok árs 2008, að mestu við Landsbankann. Heimir hefur setið í skilanefnd Glitnis frá því Fjármálaeftirlitið tók lyklavöldin í bankanum fyrir um sautján mánuðum.

Gunnar tekur fram að þetta eigi almennt við um fjárhagsstöðu og skuldbindingar þeirra sem sitji í skilanefndum.

Af félögunum Heimis stendur einkahlutafélagið Safn verst. Það tapaði rúmum 1.468 milljónum króna árið 2008 og var eigið fé þess neikvætt um 576,3 milljónir. Á sama tíma námu skuldir 771 milljón króna umfram peningalegar eignir og bókfært eigið fé. Félagið fjárfestir í erlendum hlutabréfum.

Heimir er skráður fyrir 27 prósenta hlut í Safni en afganginn eiga félögin Fjármagn og Nafn. Þau eru öll skráð á hann. Fjórða einkahlutafélag Heimis er ráðgjafarfyrirtækið Safn ráðgjöf. Félögin voru stofnuð á árunum 1995 til 2003 að því síðasttalda undanskildu. Það var stofnað í desember 2008 og tapaði 87 þúsund krónum á árinu en skuldaði 86 milljónir króna í lok árs. Heildarskuldir félaganna fjögurra námu rúmum 1,2 milljörðum króna. Eignir námu 723,4 milljónum króna og var eigið fé þeirra neikvætt um 492,7 milljónir króna í lok árs.

„Það sem mestu skiptir er að engar skuldir eru við Glitni eða Íslandsbanka," segir Heimir, sem stóð til boða að taka sæti í skilanefnd Landsbankans við ríkisvæðingu bankanna. Því hafnaði hann vegna hagsmunaárekstra.

Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, kannaðist ekki við skuldastöðu félaga Heimis þegar hann var inntur eftir því í gær. Hann segir Fjármálaeftirlitið hafa farið yfir fjárhagslega stöðu skilanefnda að einhverju leyti í kringum hrun bankanna. Hann gat ekki sagt til um hversu ítarleg sú skoðun var. Þeir sem rætt hefur verið við segja skilanefndir hafa verið myndaðar í óðagoti og lítill tími gefist til skoðunar á fjárhagsstöðu skilanefndafólks. Skilanefndir hafi sjálfar átt frumkvæðið að því að greina frá hagsmunum sínum gagnvart bönkunum. FME setti skilanefndirnar saman í október 2008 og hafði eftirlit með þeim til loka apríl í fyrra þegar ný lög voru sett um þær. Í kjölfarið færðist valdið yfir til kröfuhafa og þurfa skilanefndir að standa skil á öllu sínu gagnvart óformlegu kröfuhafaráði. Það hefur takmarkað vald, eftir því sem næst verður komist. jonab@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×