Viðskipti innlent

Gjaldþrotum í janúar fjölgaði um 26% milli ára

Í janúar 2010 voru 92 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta samanborið við 73 fyrirtæki í janúar 2009, sem jafngildir rúmlega 26% fjölgun milli ára. Eftir bálkum atvinnugreina voru flest gjaldþrot í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð.

Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir ennfremur að í janúar 2010 voru skráð 157 ný einkahlutafélög (ehf) samanborið við 223 einkahlutafélög í janúar 2009, sem jafngildir tæplega 30% fækkun milli ára. Einnig voru skráð 96 samlagsfélög (slf) í janúar sem er svipaður fjöldi og skráður var allt árið 2009 þegar 97 samlagsfélög voru skráð.

Eftir atvinnugreinum voru flest einkahlutafélög skráð í heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum en flest samlagsfélög voru skráð í heilbrigðis- og félagsþjónustu.

Hagstofa Íslands birtir nú í fyrsta skipti mánaðarlegar tölur yfir nýskráningar fyrirtækja og félaga eftir rekstrarformi og bálkum atvinnugreina. Mánaðarlegar tölur yfir nýskráningar ná aftur til janúar 2008 og munu framvegis uppfærast mánaðarlega samhliða uppfærslu á tölum yfir gjaldþrot fyrirtækja.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×