Handbolti

Aron: Meiri fiðringur í fullri höll en fyrir framan tíu þúsund manns

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson í landsleik í Höllinni.
Aron Pálmarsson í landsleik í Höllinni. Mynd/Stefán
Aron Pálmarsson hefur spilað reglulega fyrir framan tíu þúsund manns með Kiel í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í vetur en þessi 19 ára Hafnfirðingur segir þó engu líkt að spila fyrir fram full Laugardalshöll sem öskar "Áfram Ísland". Ísland mætir Portúgal í Laugardalshöllinni klukkan 20.15 í kvöld í kveðjuleik sínum áður en Strákarnir okkar fara á EM í Austurríki.

„Það er gaman að fá einn leik heima og við vonumst eftir því að fá fulla höll. Það munar öllu. Við spiluðum um daginn pressuleikinn og þá vorum við að pæla í því hvort það kæmi full höll eða ekki. Þá komu mjög fáir. Það munar öllu að fá massa stemmningu," segir Aron.

„Ég er að spila út fyrir tíu þúsund manns en ég finn samt fyrir meiri fiðring þegar ég hleyp inn í fulla Laugardalshöllina. Það er er bara eitthvað við það og þjóðarstoltið hefur þar mikið að segja," segir Aron og hann vonast eftir því að íslenska þjóðin kveðji liðið í leiknum á móti Portúgal í kvöld.

„Það er flott fyrir mótið að vita af stuðningnum og fá stuðninginn beint í æð. Það munar öllu fyrir okkur," sagði Aron að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×