Viðskipti innlent

Gott uppgjör hjá Royal Unibrew

Royal Unibrew næststærstu bruggverksmiðjur Danmerkur skiluðu góðu uppgjöri eftir árið í fyrra. Hagnaður upp á 77 milljónir danskra kr., eða um 1,8 milljarð kr. Til samanburðar má nefna að Royal Unibrew skilaði tapi upp á 453 milljónir danskra kr. árið 2008, hið stærsta í sögu verksmiðjanna.

Straumur heldur enn á 4,99% hlut í Royal Unibrew og Stoðir eiga tæplega 6%.

Í frétt um uppgjörið á börsen.dk segir að á sama tíma og Royal Unibrew skilaði hagnaði eftir árið í fyrra hefur tekist að grynnka á skuldum verksmiðjanna um 775 milljónir danskra kr. og nema þær nú um 1,4 milljörðum danskra kr.

Henrik Brandt forstjóri Royal Unibrew segir að hann sé mjög ánægður með uppgjörið fyrir 2009. „Við settum okkur markmið að ná skuldunum niður og höfum náð langt með það," segir Brandt.

Samhliða birtingu uppgjörsins í morgun kom endurnýjuð áætlun um afkomu Royal Unibrew á þessu ári. Væntingarnar nú hljóða upp á brúttóhagnað (EBITDA) upp á 475-525 milljónir danskra kr. og að skuldir muni minnka niður í um einn milljarð danskra kr.

Royal Unibrew framleiðir m.a. Ceres og Albani öl og Faxe Kondi gosdrykkinn.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×