Skoðun

Borgin þarf Vinstri græn - nú sem aldrei fyrr

Sóley Tómasdóttir skrifar
Kjósendur í Reykjavík ganga að kjörborðinu í dag og kjósa um hugmyndafræði, sem verður ríkjandi í borginni næstu fjögur ár. Þetta er óskýrt hjá sumum flokkum sem vilja jafnvel ekki kenna sig við neina hugmyndafræði.

Hún er samt alltaf til staðar. Ákvörðun um að færa auðlindir borgarbúa í hendur útrásarvíkinga byggir á hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins eins og stækkun golfvallar á sama tíma og velferðarmál eru skorin niður. Okkar hugmyndafræði gengur út á að verja almannafyrirtæki og auðlindir þjóðarinnar - og forgangsraða velferð á undan golfvöllum.

Eftir farsakennt kjörtímabil í borgarstjórn Reykjavíkur, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn var til í allt, eru borgarbúar dauðþreyttir. Hugmyndafræði er bannorð og stjórnmálin mega helst ekki snúast um neitt.

En að flýja pólitík er eins og að flýja morgundaginn. Pólitík er alls staðar og kjósendur eiga rétt á að vita fyrir hvað flokkar standa.

Það er pólítík að tryggja aðgang að hreinu neysluvatni. Það er pólítík að konur og karlar fái sömu laun fyrir sömu vinnu. Leik- og grunnskólar og almenningssamgöngur eru pólítík, eins og fjárhagsaðstoð, sorpflokkun og gæði andrúmsloftsins. Því lífsgæði borgarbúa eru háð þeirri hugmyndafræði sem ræður ríkjum í ráðhúsinu hverju sinni.

Verkefni næsta kjörtímabils eru risavaxin, vegna þess að sameiginlegir sjóðir okkar hafa verið rýrðir í þágu hugmyndafræði frjálshyggju og afskiptaleysis. Sameiginlegi sjóðurinn okkar er bæði fjármagnaður og nýttur af okkur öllum - við leggjum í hann eftir getu og tökum úr honum eftir þörfum. Skattagrýlan er ekki ljótari en svo.

Eftir óábyrga fjármálastjórn frjálshyggjuafla verðum við að grípa til aðgerða. Borgarsjóður stendur ekki af sér óbreytta þjónustu án þess að tekjur aukist. Til þess eru tvær leiðir: Gjaldskrárhækkanir eða útsvarshækkun.

Augljóst er hvor leiðin er sanngjarnari - gjaldskrárhækkanir leggjast flatt á notendur þjónustunnar, en útsvarshækkun krefst meira af tekjuháum en tekjulágum.

Óábyrg fjármálastjórn hefur ekki aðeins sett velferðarkerfið í hættu. Almannafyrirtæki riða líka á barmi gjaldþrots. Hrægammar sveima yfir landinu og hafa þegar krækt í feitan bita á Suðurnesjum.

Orkuveita Reykjavíkur má aldrei lenda í höndum einkaaðila, hún er undirstaða lífsgæða okkar. Orkuveitan á ekki aðeins að vera í eigu almennings, heldur einnig undir stjórn hans. Öðruvísi verða hagsmunir borgarbúa ekki tryggðir.

Eftir hrunið stendur hugmyndafræði Vinstri grænna ósködduð. Við megum vera stolt. Félagslegt réttlæti, kvenfrelsi og umhverfisvernd á erindi í stjórnmálin nú sem þá - og raunar meira ef eitthvað er.

Við Vinstri græn þorum að glíma við erfiðar aðstæður og erfið verkefni. Við þorum að setja mál á dagskrá - og takast á við kröfuharða sérhagsmunahópa - og halda fram hagsmunum heildarinnar.

Borgin þarf á Vinstrihreyfingunni - grænu framboði að halda. Nú sem aldrei fyrr.

 




Skoðun

Sjá meira


×