Handbolti

Kiel saxaði á forystu Hamburg

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel.
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel. Nordic Photos / Bongarts

Kiel minnkaði forystu Hamburg á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar í þrjú stig á nýjan leik með sigri á Füchse Berlin í kvöld, 35-26. Kiel á þar að auki leik til góða.

Um sannkallaðan Íslendingaslag var að ræða þar sem þjálfarar beggja liða eru íslenskir en það eru þeir Alfreð Gíslason, Kiel og Dagur Sigurðsson, Füchse Berlin.

Þá leikur Aron Pálmarsson með Kiel en hann skoraði tvö mörk í leiknum. Rúnar Kárason, leikmaður Berlínar, skoraði eitt mark.

Þá vann Rhein-Neckar Löwen nokkuð öruggan sigur á Minden á heimavelli, 37-32. Snorri Steinn Guðjónsson skoraði tvö mörk fyrir Löwen og Ólafur Stefánsson eitt.

Gylfi Gylfason skoraði fjögur mörk fyrir Minden og Ingimundur Ingimundarson tvö.

Gummersbach vann Dormagen, 31-28. Róbert Gunnarsson skoraði tvö marka fyrrnefnda liðsins.

Alexander Petersson skoraði tvö mörk fyrir Flensburg sem vann Grosswallstadt, 24-18. Einar Hólmgeirsson skoraði tvö fyrir Grosswallstadt en Sverre Andreas Jakobsson komst ekki á blað að þessu sinni.

Þá vann Lemgo sigur á Melsungen, 35-30. Vignir Svavarsson skoraði ekki fyrri Lemgo en Logi Geirsson var ekki í leikmannahópi liðsins í kvöld.

Flensburg er í þriðja sæti deildarinnar en ellefu stigum á eftir Hamburg. Rhein-Neckar Löwen er í fjórða sætinu, Gummersbach í sjötta og Lemgo, Grosswallstadt og Füchse Berlin koma næst. Minden er í neðsta sæti deildarinnar með aðeins átta stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×