Erlent

Ekki hægt að afgreiða lán til Íslands

„Fréttir síðustu daga frá Íslandi," segir sænski þingmaðurinn Carl B. Hamilton á bloggi sínu, „gera það að verkum að Svíþjóð getur ekki greitt nein lán til Íslands."

Hamilton er þingmaður Frjálslynda þjóðarflokksins, eins stjórnarflokka Fredriks Reinfeldts forsætisráðherra, og jafnframt formaður Evrópusambandsnefndar sænska þingsins.

Hann segir sænsk stjórnvöld ekki geta veitt Íslendingum nein lán fyrr en Ísland hefur fallist á uppgjör skulda sinna, meðal annars við Bretland og Holland, og vísar þar til samþykktar fjárlaganefndar sænska þingsins frá því í október síðastliðnum.

„Með neitun forsetans," segir Hamilton, „verður bæði dýrt og erfitt fyrir Ísland að fá lán erlendis. Án samkomulags við bæði Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Norðurlöndin og Evrópusambandið verða vextirnir hærri og lánin færri."

Fréttastofan Reuters hefur sömuleiðis eftir ónafngreindum embættismanni í fjármálaráðuneyti Finnlands, að ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar um að undirrita ekki Icesave-lögin verði líklega til þess að fresta lánagreiðslum frá Norðurlöndunum til Íslands. Nú muni Norðurlöndin þurfa að endurskoða skilyrði lánveitingar sinnar til Íslands. - gb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×