Skoðun

Skuldsetningarheimild Alþingis takmörkuð í stjórnarskrá

Vilhjálmur Þ. Á. Vilhjálmsson skrifar

Alþingi fer með fjárveitingarvaldið að meginstefnu til á meðan sveitarfélög fara með fjárveitingarvaldið að hluta, samkvæmt 2. mgr. 78. gr. stjskr. sbr. 2. mgr. 9. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Samkvæmt 2. ml. 40. gr. stjórnarskrárinnar má ekki taka lán nema samkvæmt lagaheimild og er þar átt við að einungis þurfi einfaldan meirihluta þings. Undanfarið hefur hið opinbera farið mikinn í skuldsetningu og er nú svo komið að mörg sveitarfélög ramba á barmi gjaldþrots. Ekki þarf að fara mörgum orðum um fjárlagahallann og stöðu ríkissjóðs.

Við opinbera stefnumótun kemur sú staða iðulega upp að taka þurfi lán til að fjármagna þær ákvarðanir sem teknar hafa verið. Það getur verið hluti af almennri pólitík að eyða meira eitt árið heldur en það næsta. Ríkið getur þurft að taka lán til að fjármagna tilteknar framkvæmdir eða til að greiða fyrir velferðarþjónustu í kjölfar hallareksturs. Slíkt er gott og gilt og á ekki að vera takmarkað um of. Hins vegar verður að líta til þess að ef engar hindranir standa í vegi fyrir því að meirihluti hvers tíma skuldsetji framtíðarkynslóðir og framtiðarríkisstjórnir er komið framar því sem góðu hófi gegnir. Slíkt er síður en svo hvetjandi fyrir skynsamlega fjárhagsstjórn. Þá getur maður rétt svo ímyndað sér hversu þensluhvetjandi slíkt getur verið þegar hagkerfið má ekki við umframeyðslu.

Það er ólíðandi að hið opinbera geti skuldsett framtíðarkynslóðir án þess að brýn nauðsyn standi til. Ég held að það sé orðið tímabært að taka til fullrar skoðunar hvort ekki sé orðið nauðsynlegt að binda hendur fjárveitingarvaldsins í stjórnarskrá. Hugmyndin sem ég hef verið að velta fyrir mér er hvort ekki sé hægt að koma sér saman um reglu sem kæmi í veg fyrir óþarfa skuldsetningu án þess að binda hendur fjárveitingarvaldsins um of. Það væri til að mynda hægt að hugsa sér að skuldsetning yfir ákveðnu hlutfalli þjóðarframleiðslu yrði einungis heimil ef brýna nauðsyn bæri til í þágu allsherjarreglu, öryggis ríkisins eða að almannahagsmunir þess krefðust. Að auki væri hægt að hugsa sér að til þyrfti aukinn meirihluta Alþingis til samþykktar á skuldsetningu sem færi yfir tiltekið (hærra) hámark þjóðarframleiðslu ársins, eða áranna, á undan.

Eitt er þó víst. Við viljum ekki vakna við það að valdhafar hafi skuldsett borgarana þannig að sjálfstæði þjóðarinnar sé í hættu, án þess að full rök standi til. Því tel ég fulla ástæðu til að taka slíkar hugmyndir til umræðu á stjórnlagaþingi.

Vilhjálmur Þ. Á. Vilhjálmsson

Höfundur er lögfræðingur og gefur kost á sér til stjórnlagaþings.

3-18-3






Skoðun

Sjá meira


×